135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

kjarasamningar opinberra starfsmanna.

46. mál
[17:29]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég lagði ekki til að hv. þm. Pétur Blöndal breytti forgangsröð sinni. Ég benti hins vegar á að mér þætti réttara að hann tæki upp önnur mál.

Ég vil nota tækifærið og tala um skattlagningu. Þegar stjórnarskránni var breytt 1995 var í forvinnunni sem fram fór 1992 til 1994 mikið rætt um félagsgjöld, skattlagningu og annað sem hv. þingmaður talaði um. Þá kallaði ég frumvarp ríkisstjórnarinnar vopnabúr árása á verkalýðshreyfinguna. Því tókst að breyta, t.d. með ákvæðinu um að stéttarfélögin væru mikilvægustu félög í lýðræðisríki ásamt stjórnmálafélögum. Þau og félagsmenn þeirra eiga sjálf að fá að ráða málum sínum. Leitað var til virtra fræðimanna á sviði stjórnskipunar og voru allir sammála um að skipulag á félagsgjöldum, forgangsrétti og öðru stæðist. Menn eru ekki skyldaðir til veru í stéttarfélögum. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður muni næst leggja fram frumvarp þar sem skoðaðir yrðu innviðir samtaka atvinnulífsins og skylduaðildarákvæði sem þar ríkja. (Gripið fram í: Ég er búinn að því.)