135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

Árneshreppur.

75. mál
[12:43]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim góðu undirtektum sem stuðningur við Árneshrepp hefur fengið í þinginu sem hreppurinn vissulega verðskuldar. Að mínu mati er mikilvægt að við reynum að styðja við byggð og búsetu í Árneshreppi sem er ekki síst nauðsyn vegna þeirrar fjölbreytni sem við viljum varðveita í þjóðfélaginu. Auðvitað er einn hluti af því að efla fjarskipti þar og ég veit að hv. málshefjandi í þessari umræðu hefur verið, eins og ég og margir fleiri, áhugasamur um að það yrði gert. Það hefur því miður dregist mjög úr hófi að staðið yrði við að efla fjarskiptin í Árneshreppi en betri fjarskipti eru mjög mikilvæg fyrir uppbyggingu í atvinnulífi, m.a. á sviði ferðaþjónustu sem menn hafa verið að reyna að beita sér fyrir og auðvitað fyrir almenna starfsemi í sveitarfélaginu.

Ég veit að í hópi þingmanna Norðvesturkjördæmis hefur verið góður stuðningur við það að reyna að pota áfram samgöngubótum sem eru nauðsynlegar þarna norður frá. Það kostar að vísu mikið en það er hlutur sem ég held að við eigum að einbeita okkur að að gera vegna þess að það skiptir líka mjög miklu máli fyrir framtíð búsetu í Árneshreppnum.