135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

skýrsla nefndar um flutningskostnað og jöfnun flutningskostnaðar á landsbyggðinni.

84. mál
[13:43]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og þessa umræðu. Það er gott að hún hafi farið fram. Ég þakka þeim háttvirtu þingmönnum sem tekið hafa þátt í henni en þar eru þrír landsbyggðarþingmenn. Þetta er gamalkunn umræða. Það er rétt að ég tók oft þátt í umræðum um þessi mál. En ég saknaði þess oft að hv. þm. Jón Bjarnason kæmi ekki í þá umræðu með mér hér áður fyrr.

En ég vildi aðeins snúa mér að því sem hér hefur komið fram. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson talar um fleiri landsvæði sem eigi í álíka vanda og það er rétt. Ég gat m.a. um Þórshöfn. En ég verð nú að geta þess, virðulegi forseti, að það er ekki 45% dýrara að flytja vörur til Þórshafnar en Ísafjarðar. Það er einfaldlega vitlaust reiknað. Ég óska hv. þingmanni velfarnaðar í námi sínu vegna þess að ekki veitir af sýnist mér, a.m.k. hvað varðar þennan prósentureikning. Þetta er einfaldlega ekki rétt sem hv. þingmaður setti fram máli sínu til stuðnings varðandi flutningskostnað til Þórshafnar borið saman við flutningskostnað til Ísafjarðar.

Aðeins varðandi umræðu um Eimskip. Ég hef að sjálfsögðu lesið það eins og aðrir en samgönguráðuneytið og samgönguráðherra geta ekki gripið inn í svoleiðis fyrirtæki á markaði. Við munum það þingmenn landsbyggðarinnar hvað við vorum svekktir þegar áformin voru kynnt sem hækkuðu töluvert gjöldin á landsbyggðina. Í það er ekki hægt að fara nánar.

Varðandi það sem hv. fyrirspyrjandi talaði um í lokin, um hvernig útfæra skuli þetta, þá ítreka ég það sem ég sagði áðan. Það er enn óútfært og fram undan er vinna við að fara í gegnum það. Ég minni hins vegar á að þessi upphæð er vistuð í viðskiptaráðuneytinu en ég tek undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni varðandi það að auðvitað er mikilvægt að finna gott framtíðarfyrirkomulag til þess að nýta þá peninga sem fást hverju sinni til þess að lækka flutningskostnað til þeirra staða sem lengst eru frá Reykjavík og búa við langhæst flutningsgjöld.