135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

leigubílar.

137. mál
[13:53]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér engu við fyrra svar mitt að bæta nema þakka hv. þingmanni fyrir þau sex atriði sem hann nefndi. Auðvitað verða þessi atriði tekin með í þeirri endurskoðun sem fer fram. Sérstaklega er fjórða atriðið athyglisvert, að gefa núverandi leigubílshöfum kost á því að reka bíl númer tvö með eitthvað minni tilkostnaði á ákveðnum annatímum.

Við þekkjum vandann og þeir sem hafa unnið í samgönguráðuneytinu í fyrri tíð, eins og hv. þingmaður, sem var aðstoðarmaður samgönguráðherra til langs tíma, vita að flestar heimsóknirnar í það ráðuneyti voru frá leigubílstjórum. Nú hefur þetta verið fært til Vegagerðarinnar og fram undan hjá mér er að hitta eina sex eða sjö leigubílstjóra sem hafa pantað viðtal á næstunni. Ég mun taka á móti þeim með glöðu geði.

Ég þakka umræðuna, hún er gott innlegg í þá endurskoðun sem þarf að fara í. Þessi þjónusta á að vera til reiðu fyrir fólk á háannatímum og hlutirnir þurfa að ganga vel fyrir sig. Bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu eiga að auðvelda leigubifreiðum sem og öðrum ferð um borgina.