135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

157. mál
[14:56]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Mér finnst hún endurspegla þá þróun sem við höfum staðið frammi fyrir á undanförnum missirum og árum, þ.e. að flytja námsframboðið og námstækifærin nær samfélögunum. Að vissu leyti verður alltaf að vera til staðar ákveðinn rektstrargrundvöllur því að hann, eða skortur á honum, mundi hafa áhrif á faglegt starf.

Það hefur verið unnið ágætlega að undirbúningi framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Við stefnum að honum og ætlum okkur að hefja starfsemi í þeim skóla árið 2009 í samræmi við það sem ég hef ávallt sagt hér á þingi. Það er m.a. í tengslum við opnun Héðinsfjarðarganganna sem eru lykillinn að því að hægt verði að byggja upp góðan skóla og hefja ötult skólastarf.

En spurt er í fyrsta lagi: Hvenær er áætlað að hefja framkvæmdir við byggingu framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð?

Í mars sl. skipaði ég stýrihóp til undirbúnings stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð á grundvelli óska heimamanna. Það skiptir mjög miklu máli að við byggjum þarna upp skóla sem er í samræmi við óskir heimamanna því að þeir skilja þarfir og umhverfi manna best í stefnumótun skólans. Hópinn skipa bæjarstjórar Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar og þrír sérfræðingar ráðuneytisins um skólamál. Hópnum er ætlað að móta hugmyndir um námsframboð, námsfyrirkomulag, aðstöðu og staðsetningu fyrirhugaðs skóla og gera tillögu um upphafstíma skólahalds. Hópurinn skal í störfum sínum leita sérstaklega eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila á svæðinu. Hópurinn er að vinna að úrvinnslu verkefnisins og hefur bakhópur heimamanna verið honum til halds og trausts. Nú á haustdögum verður gerð könnun á sjónarmiðum og viðhorfum íbúa svæðisins til stofnunar nýs skóla. Verður sérstök áhersla lögð á að kanna hug nemenda í grunnskólunum og foreldra þeirra. Þá verður þörf fyrir menntun í atvinnulífinu skoðuð sérstaklega svo og áhugi á fullorðinsfræðslu.

Lengra er vinnan ekki komin í bili en línur munu skýrast á næstu vikum þegar upplýsingaöflun er lokið og stýrihópurinn hefur skilað tillögum um framhald málsins, svo sem um staðsetningu fyrirhugaðs skóla og aðstöðu sem þarf að koma upp áður en kennsla getur hafist.

Í öðru lagi er spurt: Hvar verður skólinn og hvenær er áætlað að hann verði fullbúinn í nýju húsnæði?

Eins og ég gat um áðan er málið á vinnslustigi en stýrihópurinn miðar við það að reglulegt skólastarf hefjist haustið 2009. Héðinsfjarðargöngin verða þá væntanlega opnuð það haust, jafnvel fyrr, og er sú samgöngubót helsta forsenda nýs skóla á svæðinu. Stýrihópurinn vinnur út frá því að höfuðstöðvar skólans verði í Ólafsfirði og þetta er það sem við höfum miðað við. Ég hef heyrt ofan í sveitarstjórnarfólk á þessu svæði og menn eru sammála um að höfuðstöðvar skólans verði í Ólafsfirði. Gangi þetta eftir þarf að sjálfsögðu að tryggja skólanum góða starfsaðstöðu fyrir haustið 2009.

Síðan er spurt: Hver er áætlaður kostnaður við nýbyggingu framhaldsskólans?

Ákvörðun um nýbygginguna hefur ekki verið tekin og þar af leiðandi liggja engar áætlanir fyrir um kostnað. En eins og sjá má í fyrirliggjandi frumvarpi til fjáraukalaga eru 5 millj. kr. ætlaðar til að flýta undirbúningi við fyrirhugaðan skóla við utanverðan Eyjafjörð svo og 15 millj. kr. í frumvarpi til fjárlaga 2008. Er þetta hugsað sérstaklega til þess að ráða starfsmenn sem geta haldið utan um verkefnið og ýtt því áfram þangað sem við viljum sjá það.

Þótt þessar fjárveitingar dugi að sjálfsögðu ekki til að byggja nýjan skóla geta þær nýst, og nýst vel, til að tryggja málinu framgang og hraða nauðsynlegum undirbúningi. Ég undirstrika það sem ég hef sagt áður í ræðustól að það sem er lykilatriði í þessu máli er að við vinnum það í samvinnu og sátt við heimamenn og að breið samstaða náist hjá heimamönnum um það, bæði hvar skólinn eigi að vera og hvernig uppbygging hans eigi að vera.

Ég leyfi mér að mótmæla því sérstaklega sem kom fram hér í máli hv. fyrirspyrjanda að málið sé í lausu lofti. Það er síður en svo. Málið er í ákveðnum farvegi, það er unnið að því í samvinnu við heimamenn og það er vilji til þess. Viljinn er alveg skýr, við ætlum okkur að opna þennan framhaldsskóla haustið 2009 ef allt gengur eftir.