135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra.

132. mál
[15:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svör við fyrirspurn minni. Það er hárrétt, sem þar kemur fram, að til að sáttmálinn öðlist gildi þarf tiltekinn fjöldi ríkja að staðfesta hann. Í svari ráðherra kemur jafnframt fram að ráðuneytið hafi nú þegar sett af stað vinnu til að fara yfir lagaákvæði sem gætu hugsanlega stangast á við ákvæði sáttmálans, væntanlega í því augnamiði að flytja frumvarp til breytinga á lögum til þess að þau uppfylli þau ákvæði sem sáttmálinn gerir ráð fyrir.

Ég fagna líka yfirlýsingu ráðherrans um að hún útiloki ekki lögfestingu sáttmálans. Það er rétt, sem kemur fram í svari ráðherrans, að það er ekki almenna reglan, ef svo má segja, að lögfesta sáttmála af þessum toga. Ég held hins vegar að það sé umhugsunarefni fyrir okkur hvort ekki sé tilefni til að gera það í meira mæli en við höfum gert til þessa þannig að þau réttindi og þau efnislegu atriði sem tekið er á í alþjóðlegum sáttmálum fái skýra lagastoð í íslenskri löggjöf. Það á ekki síst við í málum sem varða mannréttindi eins og sá sáttmáli sem hér er til umræðu vissulega gerir. Hér er verið að ræða um rétt og mannréttindi fatlaðs fólks. Ég held það sé ákaflega þýðingarmikið að mjög skilmerkilega sé kveðið á um þau í löggjöf.

Ég fagna því svari ráðherra að þessi vinna sé farin í gang en það er ljóst að við hér á Alþingi munum að sjálfsögðu fylgjast með þeirri vinnu og óska eftir upplýsingum um það hvernig henni vindur fram. Ég treysti því að félagsmálaráðuneytið muni halda vel utan um þetta samstarfsverkefni fleiri ráðuneyta.