135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

íslenska friðargæslan.

74. mál
[15:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þegar stjórnarfrumvarp til laga um íslensku friðargæsluna kom inn á þing á síðasta vetri gagnrýndi ég og fleiri strax við 1. umr. þess máls markmiðsgrein frumvarpsins. Þar var gerður greinarmunur á annars vegar þátttöku okkar í formi þess að senda fólk til starfa við svokölluð almenn friðargæsluverkefni, þar á meðal, eins og sagði í b-lið frumvarpsins, til þátttöku í aðgerðum til að halda hættuástandi á átakasvæðum í skefjum annars vegar og hins vegar verkefnum borgaralegra sérfræðinga sem féllu undir friðargæsluna.

Við lögðum strax til, stjórnarandstæðingar, með breytingartillögu, að þátttaka Íslands að þessu leyti yrði alfarið á borgaralegum forsendum, skilgreind sem borgaraleg verkefni og gert yrði ljóst að ekki væri um neins konar þátttöku okkar að ræða í verkefnum sem væru hernaðarlegs eðlis eða á hernaðarlegum forsendum. Því var og bætt við að okkar tillögu að verkefni íslensku friðargæslunnar mættu aldrei brjóta í bága við ákvæði mannúðar- og mannréttindasamninga.

Skemmst er frá því að segja að Alþingi féllst á þessar breytingar og þær voru efnislega teknar inn í 1. gr. og eru þar af leiðandi nú gildandi lög í þessum efnum. Segja má að Alþingi hafi þar með tekið í taumana og mótað stefnuna að þessu leyti. Þetta voru ekki formbreytingar heldur beinar efnisbreytingar og höfðu mikla efnislega og pólitíska skírskotun.

Í framhaldi af því hefði ég talið eðlilegt að íslenskt friðargæslulið sem var við störf á hernaðarlegum forsendum eða undir hernaðarlegri stjórn hefði verið kallað heim og verkefni okkar að öllu leyti endurskilgreind í ljósi þeirrar stefnu sem Alþingi hafði þannig sjálft mótað.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. utanríkisráðherra:

1. Er þess að vænta að íslenskir friðargæsluliðar verði kvaddir heim frá Afganistan? — Má ég þá minna á hvernig það verkefni gengur og það fúafen sem NATO-liðið er að sökkva ofan í í Afganistan og versnar dag frá degi.

2. Hefur farið fram eða stendur yfir endurmat á þátttöku Íslendinga í friðargæsluverkefnum í kjölfar nýrra laga um íslensku friðargæsluna?

3. Telur ráðherra að þátttaka íslenskra friðargæsluliða í verkefnum á vegum NATO — og þá er ég fyrst og fremst að vísa til Afganistan — sé samrýmanleg ákvæðum 1. gr. laga, nr. 73/2007, um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu?

Ég vísa þar sérstaklega til þess að verkefninu er stjórnað af NATO, íslensku friðargæsluliðarnir bera þar hernaðarleg starfsheiti og mannfall óbreyttra borgara í Afganistan er tvímælalaust brot á alþjóðamannréttindasamningum. Ég tel því að það brjóti bæði ákvæði efnismálsgreinar og síðustu málsgreinar 1. gr. laga um íslensku friðargæsluna að við stöndum að málum eins og við gerum í Afganistan.