135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

íslenska friðargæslan.

74. mál
[15:25]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það blása vissulega aðrir vindar í utanríkisráðuneytinu nú en verið hefur mörg undanfarin ár og er það að mörgu leyti fagnaðarefni. Ég vil þó segja um svonefnda friðargæsluliða að mér er það þvert um geð að á vegum íslenskra stjórnvalda starfi Íslendingar undir vopnum og í herskipulagi og undir herstjórn. Ég tel að við ættum ekki að skipa okkur undir þau merki. Það er nóg af verkefnum á þessu alþjóðlega sviði sem þurfa liðsinni og atbeina okkar og við getum sinnt með sómasamlegum hætti og látið okkar framlag til alþjóðamála koma fram með fullkomlega burðugum hætti sem við getum verið fullsæmd af. Mér er þvert um geð að Íslendingar gangi um með vopn jafnvel þó að þeir heiti friðargæsluliðar.