135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stýrivextir Seðlabankans og stjórn efnahagsmála.

[15:55]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að þenslan hjá almenningi kallar ekki á stýrivaxtahækkanir en almenningur borgar brúsann vegna stýrivaxtahækkana Seðlabanka, svo mikið er víst. Stýrivaxtahækkanir Seðlabanka hafa lítil sem engin áhrif á verðtryggð lán, a.m.k. ekki þegar horft er til skemmri tíma, og engin áhrif til að takmarka erlenda lántöku en þar hefur stýrivaxtahækkun öfug áhrif, a.m.k. hvað varðar gengið til skemmri tíma. Enn fremur hvetur sterkari króna til aukins innflutnings og meiri viðskiptahalla. Stýrivaxtahækkun hefur því lítil áhrif á þenslu í samfélaginu, þ.e. á aðra en þá sem þurfa að taka lán í íslenskum krónum. Tæki bankans bíta ekki á aðra og það segir meira en mörg orð um þá stöðu sem Seðlabankinn er í og það tæki sem hann hefur til að berjast við verðbólgu.

Hækkun stýrivaxta Seðlabankans var óvænt en kannski var hún það ekki þegar horft er til þess að bankinn hefur ekkert annað tæki til að brúka við þessar aðstæður og til að ná markmiði sínu um 2,5% verðbólgumarkmið. Hugmyndafræðin um miðlunarkerfi peninga og stýrivaxtahækkanir virðist hafa takmörkuð áhrif nema a.m.k. ríkissjóður taki einnig þátt í því að takmarka fjármagn í umferð. Ég skil vaxtahækkun Seðlabanka á þann veg að hann hafi áhyggjur af komandi kjarasamningum, væntanlegu launaskriði og ótta við gengishrun. Þá skil ég vaxtahækkun Seðlabanka einnig sem tilraun til að handstýra eignaverði niður á við og viðbrögð Kaupþings banka frá í gær um bann við yfirtöku lána styður við þá viðleitni Seðlabanka. Ég skil vaxtahækkun Seðlabanka sem ákall til ríkissjóðs um að hann taki þátt í að dýpka íslenska skuldabréfamarkaðinn með útgáfu nýrra skuldabréfa með það að leiðarljósi að takmarka peningamagn í umferð.

Ég tel, virðulegi forseti, að stjórnmálamenn þurfi að takast á við þá spurningu.