135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvort það séu svo miklar gleðifréttir að nokkur helstu herveldi NATO geti hugsað sér að koma hingað með stríðstól sín á næstu tveimur árum til að leika sér í lofthelginni, að það eigi erindi sem sérstakur innskotskafli í ræðu hæstv. utanríkisráðherra. En þeirrar skoðunar var greinilega hæstv. iðnaðarráðherra sem kom boðskapnum hingað til hennar í púltið.

Ég þakka þessa munnlegu skýrslu sem kemur eðli málsins samkvæmt víða við eins og umfang þessa málaflokks er orðið. Það má velta því fyrir sér hvort ekki sé orðið tímabært að kaflaskipta þessari umfjöllun þannig að menn taki t.d. sérstaklega fyrir það sem hér er kallað varnarmál, annars vegar þróunarsamvinnu og slíka hluti, í þriðja lagi hin klassísku alþjóðastjórnmál og utanríkismál og þar fram eftir götunum. Umfang málaflokksins vex. Það sjáum við af efnisþáttunum sem þar falla undir en líka af útgjöldum utanríkisráðuneytisins sem ég mun aðeins koma inn á á eftir. En fyrst nokkur atriði úr ræðu hæstv. ráðherra sem ég vil staldra við.

Í upphafi ræðir ráðherra um það verkefni sem ný ríkisstjórn hafi staðið frammi fyrir á sviði öryggis- og varnarmála í kjölfar brottfarar Bandaríkjahers. Hún talar um að ýmsir lausir endar hafi verið óhnýttir. Ég held að þetta sé vægt til orða tekið hjá ríkisstjórn sem hefur stofnað til stórfelldra útgjalda af þessu tilefni án heimilda í fjárlögum og þarf að sækja um hálfa og heila milljarða í viðbót samkvæmt fjáraukalögum eða fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Hæstv. utanríkisráðherra nefnir einnig fyrirbærið hnattvæðingu. Ég hefði haft gaman af því að hæstv. ráðherra hefði þá umræðu aðeins dýpri og m.a. kæmi í ljós hvort hæstv. utanríkisráðherra skrifar upp á það fyrirbæri eins og almennt er um það fjallað, sem ætla mætti af þessum texta. Forvitnilegt væri að vita hvort hæstv. ráðherra fylgir þeim sem gagnrýna fyrirbærið, a.m.k. að því leyti sem því er áfátt og tekur ekki tillit til mannréttinda, félagslegra sjónarmiða og umhverfismála.

Í kafla um utanríkisþjónustu nýrrar aldar sem ráðherra ræðir má til sanns vegar færa að utanríkisþjónustan verður að laga sig að nýjum tímum og nýjum verkefnum. En það þurfa auðvitað fleiri að gera. Ég vil í því samhengi nefna stöðu Alþingis og utanríkismálanefndar. Ég held að það sé óumflýjanlegt að taka til skoðunar að efla utanríkismálanefnd og gera hana betur í stakk búna til að sinna sínu hlutverki á þessu sviði, fylgjast með þeim stórauknu útgjöldum sem á komandi árum eiga að renna til þróunaraðstoðar, til varnarmála ef svo heldur sem horfir eða hvað sem menn vilja kalla það.

Ég fagna áherslum á norðurslóðir sem forgangsverkefni. Ég hef sjálfur verið talsmaður þess að Íslendingar settu sér það sem ég hef stundum kallað nærsvæðastefnu, að safnað yrði saman áherslum okkar á sviði samskipta við grannríkin og norðursvæðin. Í því sambandi vil ég leyfa mér að nota tækifærið og fagna sérstaklega ræðismannsskrifstofu Íslands í Færeyjum og færeyskum fulltrúa í Reykjavík. Ég vona að sem allra fyrst komist sambærileg skipan mála á í samskiptum okkar við Grænland.

Þá að öðrum atriðum. Í kafla V um störf sem er gefin sú fallega yfirskrift Störf í þágu friðar er m.a. komið inn á Afganistan, friðargæsluna og stöðu mála þar. Þar segir hæstv. ráðherra að þótt verkefnið sé gríðarlega erfitt sé enginn vafi á því að mikið hafi þegar áunnist. Er það? Hefur mikið þegar áunnist í Afganistan? Hver er staða mála þar? Er ekki veruleikinn sá að ástandið er verra þar í dag en það hefur verið mjög lengi, að slepptu kannski stuttu tímabili á síðustu mánuðum ársins 2001, þ.e. eftir að ófriðnum lauk og fyrri hluta árs 2002? Er ekki veruleikinn sá að talíbönum vex ásmegin og ýmsum fleiri hópum og héraðshöfðingjum, að mannfall óbreyttra borgara er vaxandi og að ópíumframleiðslan er í hæstu hæðum. Er ekki veruleikinn sá að fullur tugur þúsunda óbreyttra borgara hefur þegar látið lífið vegna átakanna frá því að árásirnar voru gerðar á Afganistan snemma vetrar 2001? Þar af hafa fallið fleiri óbreyttir borgarar í Afganistan á síðasta einu og hálfa árinu en féllu í árásunum á Bandaríkin 11. september nefnt ár.

Ég held að við þurfum að taka til skoðunar stöðu okkar að þessu leyti. Ég vísa til umræðu sem varð hér í gær um íslensku friðargæsluna og spurningarinnar um hvort hún eigi yfir höfuð erindi í Afganistan við þær aðstæður sem þar eru og í ljósi þeirra lagaákvæða sem sett voru á Alþingi síðastliðið vor um þá starfsemi að hún skuli annars vegar alfarið vera á borgaralegum forsendum og hún megi hins vegar aldrei brjóta í bág við mannréttindasamninga og sáttmála.

Svo kemur að liðnum öryggi og varnir í ræðu hæstv. ráðherra og mætti margt um það allt saman segja. Ég held að ég staldri aðeins við þá staðreynd, sem er ástæða til að fari ekki fram hjá mönnum, að inn á íslensku fjárlögin á nú að koma samkvæmt frumvarpi í fyrsta sinn liðurinn Varnarmál 03.213 og á hann á að setja 533,8 millj. kr. En þá er ekki allt talið. Ef við tökum rekstur Ratsjárstofnunar með á hún að kosta 822,3 millj. á næsta ári. Þá erum við komin í 1.356 millj. Ef við tökum fastanefnd Íslands hjá NATO með á rekstur hennar að kosta 100 millj. Ef við tökum árgjaldið til NATO, iðgjaldið til að fá að vera í klúbbnum, þá er það 65 millj. Þá erum við komin vel yfir 1,5 milljarða og við þetta bætist að á fjáraukalögum þessa árs á að biðja um a.m.k. 600 ef ekki 800 millj. kr. eftir því hvort við tökum 200 millj. til loftflutninga á vegum NATO þarna með. Með öðrum orðum: Sá veruleiki blasir við okkur að á einu og hálfu ári eða varla það eiga renna úr ríkissjóði Íslands 2,1–2,5 milljarðar kr. í hernaðarleg verkefni. Þá vantar mikið upp á að öllum útgjöldum sem þessu tengjast sé til haga haldið því ljóst er að aðilar eins og Landhelgisgæslan, ríkislögreglustjóri og sýslumannsembættið á Suðurnesjum, svo eitthvað sé nefnt, bera heilmikil útgjöld og vaxandi sem þessu tengist.

Auðvitað þarf að fara yfir og kortleggja hvað þessi ósköp öllsömul kosta okkur, móttaka á erlendum herjum til æfinga hér á landi o.s.frv., samanber fagnaðarerindið sem skotið var inn í ræðu utanríkisráðherra áðan. Vel að merkja, allt þetta brölt er undir þeim formerkjum að það sé á svokölluðum friðartímum, þetta eru útgjöldin á svokölluðum friðartímum, því ef þeir verða ekki fyrir hendi og ófriðlegar horfir, þá á gamli samningurinn við Bandaríkin að bjarga okkur, ekki þetta.

Ég held að við séum að glata hér niður sorglega góðu tækifæri til að brjóta í blað í utanríkismálum Íslands og endurskilgreina þetta viðfangsefni. Það erum við því miður ekki að gera, þetta er allt saman fast í gamla farvegi hernaðarhyggjunnar og „militarismans“. Í staðinn fyrir að skilgreina þau verkefni sem núna blasa við okkur á borgaralegum forsendum, björgunarstörf, mengunarvarnir og annað slíkt sem snýr að hafinu, að Ísland verði ekki bara herlaust land heldur afvopnað svæði, „demilitariserað“ með hliðstæðum hætti og t.d. Álandseyjar, kjarnorkuvopnalaust svæði og friðlýst sem slíkt og að við öflum þeirrar stöðu okkar viðurkenningar á alþjóðavettvangi í staðinn fyrir að hrökklast í þann farveg að fara að taka inn á íslensku fjárlögin nýtilkomin útgjöld til hernaðarlegra málefna svo nemur engum smáfjárhæðum. Á næsta ári kostar þetta meira en allur rekstur Háskólans á Akureyri, sem vissulega fær of lítið fé.

Síðan að öryggi og öryggishugtakinu sem hæstv. ráðherra nefnir þarna og stöðu NATO í því sambandi og það tengist líka því sem ég ræddi áður um Afganistan og erindi okkar þar. Hæstv. ráðherra telur það til marks um breytta tíma í þessum efnum að NATO skilgreinir sig nú ekki lengur sem varnarbandalag heldur sem öryggisbandalag. Það er rétt að NATO hefur breyst og sú þróun hófst strax upp úr 1990 með fundum í Róm, New York og víðar. En hvernig hefur það breyst og hvað er þá fólgið í þessu nýnefni öryggisbandalag í staðinn fyrir varnarbandalag? Jú, það er væntanlega hið nýja hlutverk NATO að geta látið til sín taka utan landamæra aðildarríkjanna, það sem á ensku er kallað „Out of Area Strategy“ og við höfum séð dæmin um og tveir atburðir eru táknrænir fyrir. Það eru loftárásir NATO á Júgóslavíu á sínum tíma þar sem m.a. var skotið á borgaraleg skotmörk eins og útvarpsturninn í Belgrad sem er klárt brot á alþjóðalögum, og það er Afganistan og það hlutverk sem NATO tók við þar, eða Bandaríkjamenn hentu í NATO sumarið 2003, að NATO er orðið að einhvers konar hreinsunardeild eftir Bandaríkjamenn þar sem þeir hafa farið um með báli og brandi. Það er nú hlutverkið.

Hvað eigum við að gera í þeim klúbbi? Hvaða erindi eigum við í klúbb sem nú er kominn með þetta hlutverk? Við áttum það svo sem aldrei, en enn þá fjarstæðukenndara er það í dag að slíkt sé í samræmi við þær áherslur og þá arfleifð Íslands að vera herlaus og hlutlaus og friðsöm smáþjóð, að eltast við þetta. Þess vegna er ég algjörlega andvígur þeim áherslum sem lesa hefur mátt á köflum út úr ræðum og málflutningi nýs utanríkisráðherra, að við eigum að leggja sérstaka og aukna áherslu á virka þátttöku í NATO. Ég tel að það sé verið að fara í ranga átt.

Má ég þá líka spyrja, af því að ráðherra kemur inn á það hér að skipaður hafi verið sérstakur 12 manna starfshópur fólks með víðan faglegan bakgrunn til að framkvæma vandað og faglegt hættumat við Ísland: Hvar er öryggismálanefndin nýja og hverju sætir að hún er ekki komin á koppinn? Henni var lofað fyrst í september fyrir meira en ári síðan þegar Bandaríkjaher var að hverfa úr landi og það er endurtekið í stjórnarsáttmála og sagt: „Ríkisstjórnin mun fylgja markaðri stefnu í öryggis- og varnarmálum og koma á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál.“ Hvaða óskaplega tíma tekur að koma þessu á? Er svona rosalega erfitt að semja bréfið til flokkanna og biðja þá um fulltrúa? Hvað vefst svona fyrir mönnum? Ég mótmæli því að þessi vettvangur skuli ekki vera kominn til sögunnar, hann hefði auðvitað átt að vera það strax í fyrrahaust og full þörf á, sérstaklega ef menn eru að setja mál í nýjan farveg og aðilar eru að fara að vinna verkefni af þessu tagi, að framkvæma þetta áhættumat, sem munu kosta fjármuni. Þá hefði auðvitað verið eðlilegt að það hefði verið undir yfirumsjón eða a.m.k. í tengslum við starf slíks öryggismálahóps eigi hann að verða eitthvað annað en orðin tóm, ef þetta á að verða eitthvað meira en sýndarmennskan, ég tala nú ekki um ef þetta á aldrei að verða neitt, ef þetta á bara að standa þarna en ekkert að gerast. Þarna hefur greinilega ekki verið unnið af neinum miklum krafti að hlutunum, verð ég að segja.

Ég vil að síðustu segja um ástand heimsmála almennt að það er auðvitað mjög dapurlegt að standa frammi fyrir því á nýrri öld, sem hæstv. ráðherra ræðir um í upphafi ræðu sinnar, að við skulum horfast í augu við ástand af því tagi sem er í Írak og Afganistan, sem er í Miðausturlöndum og Palestínu, sem er núna í Pakistan og Tyrklandi, á landamærum Tyrklands og Íraks, svo fátt eitt sé nefnt og maður sleppi Afríku í bili. Að við skulum líka horfa upp á þær hrikalegu andstæður sem fara vaxandi í samskiptum norðurs og suðurs, að við skulum horfa upp á svokallaða hnattvæðingu sem er fjarri því að geta talist sjálfbært fyrirbæri, er rekin áfram af forsendum stórfyrirtækja og áhættufjárfesta og gengur gegn þeim markmiðum sem alþjóðasamfélagið að öðru leyti er að reyna að ná fram, t.d. með þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og sjálfbæra framvindu.

Hér hef ég ekki nefnt vígbúnaðarkapphlaupið sem er auðvitað á fullu og þá staðreynd að á þessu ári og hinu næsta verður varið meiri fjármunum í heiminum til vígbúnaðar og vígvæðingar en nokkru sinni fyrr í mannkynssögunni. Þar er forusturíki Bandaríkin sem þróa ný kjarnorkuvopn þvert á samninga um hið gagnstæða að eyða þeim og þannig mætti lengi áfram telja. Menn geta skammast út í Íran og haft af því áhyggjur en hvernig standa kjarnorkuveldin sjálf að málum? Eru þau ekki að þróa vopn og ýmiss konar vígbúnað þeim tengdan, með stjörnustríðsáætlanir og fleira í þeim dúr, sem auðvitað gengur þvert á viðleitni alþjóðasamfélagsins að öðru leyti, að halda aftur af útbreiðslu kjarnorkuvopna og hvað þá að þeim verði eytt eins og á að gera samkvæmt samningnum, enda hafa þau verið dæmd ólögleg af Alþjóðadómstólnum í Haag, bæði tilvist þeirra sem slík og hótunin um að beita þeim?

Það er ekki svo að hægt sé að segja að meginstraumarnir í þróun alþjóðamála séu jákvæðir nema að mjög litlu leyti, því miður. Vonandi tekst mönnum t.d. að koma málum á rekspöl hvað varðar gróðurhúsaáhrif og losun mengandi lofttegunda eins og hæstv. ráðherra ræddi hér og rætt var í andsvari. Það er vissulega rétt að mikilvægt er að ná öllum helstu mengunarríkjunum saman að því borði og þar verður Ísland akkúrat í hópnum því að nú stefnir í (Forseti hringir.) að við verðum heimsmethafar í losun gróðurhúsalofttegunda á mann.