135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:29]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varnarlið Bandaríkjanna fór af landi brott vegna þess að Bandaríkjamenn mátu hagsmunum sínum ekki best borgið með áframhaldandi veru þess. Það mat byggðist ekki að neinu leyti á mati á íslenskum hagsmunum eða íslenskum þörfum. Mér er það nokkurt undrunarefni, hafandi í huga að hv. þingmaður hefur ekki sýnt mikla trú á dómgreind bandarískra hernaðaryfirvalda eða núverandi stjórnvalda í Washington, að hann skuli byggja svo mjög á mati bandarískra stjórnvalda og telja að það sé fullnaðarmat út frá íslenskum hagsmunum og íslenskum þörfum í nútíð og framtíð.

Um það sem hv. þingmaður sagði um Atlantshafsbandalagið og hlutverk þess og að við hefðum glatað sögulegu tækifæri með því að leysa ekki upp Atlantshafsbandalagið eftir lok kalda stríðsins, vil ég bara segja og minna á að á fjögurra ára tímabili voru hundruð þúsunda manna myrt í átökum í Bosníu. Það var atbeini Atlantshafsbandalagsins sem batt enda á það blóðbað. Á sama tíma var það alveg ljóst að allar aðrar alþjóðastofnanir voru komnar í algjört þrot um lausn á þeim vanda. Engin önnur alþjóðastofnun var í stakk búin til þess að taka á því máli.

Er ástandið í Bosníu í dag með þeim hætti að hv. þingmaður þurfi að skammast sín fyrir það eða að við sem Íslendingar og aðildar að NATO þurfum að skammast okkur fyrir það? Nei, það var þvert á móti tafarlaust bundinn endi á það blóðbað. Gríðarlega mikil orka var lögð í að byggja upp lýðræðislegar stjórnarstofnanir og þar hefur náðst umtalsverður árangur. Það er langtímaverkefni sem mun örugglega taka einhverja áratugi áður en atbeina alþjóðasamfélagsins lýkur þar endanlega. En það er líka hlutur sem við verðum að vera tilbúin að gera, að standa í ístaðinu svo lengi sem þarf til að hjálpa meðbræðrum okkar.