135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:34]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alltaf spennandi þegar við ræðum utanríkismál og ég vek athygli á því að við munum ekki ræða Evrópumálin sérstaklega núna því að hæstv. utanríkisráðherra hefur boðað að sérstök skýrsla um Evrópumál komi síðar til umræðu í þinginu. Það verður spennandi að sjá hvort þessi nýbreytni skili sér í góðum umræðum.

Ég vil byrja á að taka undir það sem fram kom í ræðu hæstv. utanríkisráðherra og einnig í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að áherslurnar eru vissulega breyttar og tvennt stendur upp úr. Annars vegar eru það varnarmálin en í ljósi breyttrar stöðu er miklu meiri þungi á varnarmálum, bæði í vinnu okkar á Alþingi og í samfélaginu almennt. Hins vegar eru það þróunarmálin en pólitísk samstaða er um að stórauka framlög til þróunarmála og reyna að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um að auka framlög upp í ákveðna prósentu af vergri þjóðarframleiðslu. Sátt er um þau mál og menn vilja auka framlögin sem fyrst. Það verða því talsverð útgjöld bæði á sviði varnarmála og þróunarmála. Eins og fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni er mikilvægt fyrir okkur í utanríkismálanefnd Alþingis að hafa aðhald á framkvæmdarvaldinu og fylgjast með þessum tveimur málaflokkum og útgjöldunum til þeirra.

Virðulegur forseti. Ég vil ræða aðeins um varnarmálin. Bandaríkjamenn fóru af landinu í fyrra sem varð til þess að við þurftum að hugsa öryggismál okkar upp á nýtt. Ríkisstjórnin hefur nú boðað að setja eigi upp einhvers konar samráðsvettvang. Ekki er búið að koma honum á stofn enn þá en mikilvægt er að það verði gert sem fyrst og ég bind miklar vonir við hann.

Það sem helst hefur borið til tíðinda í varnarmálum er að Bandaríkjamenn hafa talsvert minni viðveru hér á svæðinu almennt, á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Segja má að öryggismálin hafi veikst hér á svæðinu og þá sömuleiðis afl okkar í björgunarmálum. Það hefur orðið til þess að við þurfum að endurskipuleggja þau mál sérstaklega með hagsmuni okkar í huga.

Ljóst er að á næstu árum munu mörg skip sigla í kringum landið með olíu. Talað er um að árið 2015 sigli 500 skip í kringum Ísland með þúsund tonn af olíu hvert og við vitum líka að um 20% af olíu- og gasauðlindum í heiminum er að finna á Barentssvæðinu. Við þurfum því að vera vakandi gagnvart þessu og að sjálfsögðu þurfa öll ríki að gæta öryggismála sinna.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir gerði tvo rammasamninga þegar hún var utanríkisráðherra, bæði við Dani og Norðmenn. Ég bind miklar vonir við samningana, að þeir verði fylltir út með nánari ákvæðum því að þeir eru frekar óljósir eins og þeir eru í dag.

Við fengum upplýsingar í utanríkismálanefnd Alþingis varðandi Ratstjárstofnun sem er mikilvæg stofnun í þessu sambandi. Fundur var haldinn í utanríkismálanefnd 9. ágúst þar sem rædd voru loftvarnamál landsins því að Bandaríkjamenn hættu að reka ratsjárstöðvarnar 15. ágúst sl. Ég tel ástæðu til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvenær fáum við lagafrumvarp um ratsjáreftirlitið? Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir lagði fram frumvarp í vor sem stoppaði reyndar í ríkisstjórninni. Hvers vegna kemur frumvarpið ekki fram? Ég tel mjög mikilvægt að það gerist sem fyrst. Búið er að segja upp öllum starfsmönnum á Ratsjárstofnun með sex mánaða fyrirvara og uppsagnirnar taka gildi snemma á næsta ári en þá verðum við að vera komin með nýja löggjöf. Tíminn er því afar naumur og starfsmennirnir búa við mikla óvissu.

Ég vil líka í þessu sambandi koma inn á mál sem mér hugnast illa en það er hvernig staðið er að starfsmannamálum. Gert hefur verið að umræðuefni í fjölmiðlum hvernig starfslok forstjóra Ratsjárstofnunar bar að. Á forsíðu Fréttablaðsins var sagt að forstjórinn hafi gengið á dyr en það er ekki rétt. Fréttamaðurinn studdist, að því er virðist, við upplýsingar úr utanríkisráðuneytinu.

Bæði utanríkisráðuneytið og fyrrverandi forstjóri Ratsjárstofnunar sendu frá sér sérstakar yfirlýsingar varðandi starfslokin. Þar kemur fram að utanríkisráðuneytið hafi ekki haft neitt út á vinnu forstjórans að setja og þakkar honum gott starf. Fyrrverandi forstjóri, Ólafur Örn Haraldsson, kom því sérstaklega á framfæri í fréttatilkynningu að hæstv. utanríkisráðherra hafi hreinlega beðið hann um að hætta án þess að nokkuð hafi verið hægt að finna að störfum hans.

Mikill árangur hafði náðst í rekstri Ratsjárstofnunar. Rekstrarkostnaður lækkaði um 400 milljónir, úr 1,2 milljörðum í 800 milljónir og búið var að segja upp 50 manns. Þetta voru mjög sársaukafullar aðgerðir og fyrrverandi forstjóri fór í gegnum þær án teljandi vandræða. Ég álykta því að störf hans hafi verið góð og það er reyndar staðfest af utanríkisráðuneytinu. Ég hlýt því að spyrja: Hvað er hér á ferðinni?

Virðulegur forseti. Ég mun nú lesa upp úr leiðara Morgunblaðsins sem skrifaður var af þessu tilefni. Þar er minnst á mannabreytingar og eru þar sérstaklega nefndir tveir menn, Ólafur Örn Haraldsson, forstjóri Ratsjárstofnunar, og Alfreð Þorsteinsson sem leiddi uppbyggingarstarf nýs sjúkrahúss hér í bæ. Tilvitnun hefst:

„Í eina tíð var það siður í íslenskri pólitík að þeir sem völdin höfðu hverju sinni beittu þeim til þess að flæma pólitíska andstæðinga úr stöðum eða koma í veg fyrir að þeir fengju vinnu. Um þetta eru ljót dæmi þótt ekki sé leitað lengra aftur en til lýðveldistímans. Svo lagðist þessi siður af.“

Á öðrum stað segir:

„Það væri stórt skref aftur á bak ef horfið yrði til gamalla ósiða í þessum efnum og ómögulegt að segja hvenær og hvar þeim vígaferlum yrði lokið og hverjir hefðu orðið fórnarlömb þeirra.“

Aðeins neðar stendur:

„Þess vegna er mikilvægt fyrir nýja valdamenn að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar þeir beita nýfengnum völdum. Auðvitað verða þeir að hafa svigrúm til að koma fram margvíslegum breytingum. En þótt það geti verið einber tilviljun að tveir trúnaðarmenn Framsóknarflokksins hafi horfið úr þýðingarmiklum störfum á undanförnum vikum, hættir það að vera tilviljun ef fleiri framsóknarmenn bætast í þann hóp.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort ný kynslóð stjórnmálamanna freistast til þess að taka upp gamla ósiði og koma fram hefndum á pólitískum andstæðingum.“

Virðulegur forseti. Þetta er umhugsunarvert því að Ratsjárstofnun er búin að ganga í gegnum miklar breytingar og ég tel stofnuninni ekki til bóta að auka enn frekar á óróleikann. Mér finnst það mjög ankannalegt með hagsmuni Ratsjárstofnunar í huga. Ég hef talsverða reynslu sem fyrrverandi ráðherra og ýmsir pólitískir forustumenn unnu í stofnunum sem tilheyrðu þeim ráðuneytum sem ég stýrði á sínum tíma. Ég nefni af handahófi menn sem stóðu sig mjög vel: Magnús Jónsson á Veðurstofunni, Jón Gunnar Ottósson í Náttúrufræðistofnun Íslands, sat í stjórn Samfylkingarinnar, og Karl Steinar Guðnason í Tryggingastofnun. Þeir eru allir prýðilegir forstöðumenn. Ég hafði ekkert út á þeirra störf að setja og stuggaði ekki við þeim. Ég spyr því: Hvað er hér á ferðinni? Ég vona að við sjáum ekki meira af þessu því að ég tel að það jaðri við pólitískar ofsóknir og þá er mikið sagt.

Ég vil einnig fjalla um málefni friðargæslunnar og nefni að í september sl. tilkynnti hæstv. utanríkisráðherra að frá og með 1. október mundi íslenska friðargæslan hætta þátttöku í þjálfunarverkefni NATO í Írak. Ég gerði verulegar athugasemdir við það því að verkefnið byggist á öryggisákvæðum, tilmælum í öryggisráðinu. Um er að ræða NATO-verkefni og var ein manneskja á okkar vegum við friðargæslu í Írak. Á sama tíma og við sækjumst eftir sæti í öryggisráðinu, sem ég styð, köllum við heim fulltrúa okkar. Þetta er alls ekki hernaðarverkefni eins og hæstv. utanríkisráðherra leyfði sér að kalla það í fjölmiðlum eins og DV. Ég tel að þetta hafi verið röng ákvörðun og að við höfum með henni veikt stöðu okkar gagnvart framboði í öryggisráðinu, hún hefði betur ekki verið tekin.

Virðulegur forseti. Ég vil jafnframt tala um mál sem tengist framgöngu okkar við erlend ríki og tengja það þúsaldarmarkmiðunum. Hæstv. utanríkisráðherra kom inn á þúsaldarmarkmiðin í ræðu sinni með ágætum hætti. Við, eins og önnur ríki, höfum skuldbundið okkur til að stuðla að því að þúsaldarmarkmiðunum verði náð. Eitt þeirra er að minnka fátækt, bæta aðgengi að hreinu vatni og draga úr ungbarnadauða.

Ég vil því koma með ábendingu til hæstv. utanríkisráðherra um mál sem tekið hefur verið upp á norrænum vettvangi. Það er tillaga sem komið hefur frá miðjumönnum en var flutt inn í velferðarráð Norðurlandaráðs sem ég er formaður fyrir. Norðurlandaráð er nú búið að samþykkja þessa tillögu en það var gert í þarsíðustu viku. Tillagan byggist á því að hin ríku ríki eigi ekki að lokka til sín heilbrigðisstarfsmenn frá öðrum ríkjum því að það vantar heilbrigðisstarfsmenn í þróunarríkjunum. Sem dæmi má nefna að í Frakklandi eru fleiri læknar frá Benín en í því landi sjálfu og á Manchestersvæðinu í Bretlandi eru sömuleiðis fleiri heilbrigðisstarfsmenn frá Malaví en í landinu sjálfu.

Við Íslendingar eigum ekki að taka þátt í að lokka til okkar heilbrigðisstarfsmenn frekar en önnur þróuð ríki. Norðurlöndin eiga að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að gerður verði alþjóðasamningur um að lönd leiti ekki með virkum hætti til þróunarríkja til að fá heilbrigðisstarfsmenn. Ég vil tengja þetta við stöðuna á menntun hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Við höfum færri hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða hér á Íslandi á hverja 100 þúsund íbúa en á öllum hinum Norðurlöndunum. Við höfum reyndar fleiri lækna en okkur vantar hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.

Við reynum að bjarga okkur, auglýsum á Norðurlöndunum eftir starfsmönnum og hingað koma t.d. danskir og norskir hjúkrunarfræðingar. Hin Norðurlöndin leita svo til þróunarríkjanna og sækja sér heilbrigðisstarfsfólk þaðan. Þetta hangir því allt saman. Á sama tíma og okkur vantar hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða eru fjöldatakmarkanir í hjúkrunarfræðideild við Háskóla Íslands. Við tökum ekki alla inn sem við getum tekið á móti. Fólk nær prófum en fær þó ekki inngöngu. Við gerðum reyndar átak á sínum tíma, sú er hér stendur og hæstv. menntamálaráðherra, og hækkuðum kvótann en betur má ef duga skal. Við þurfum að vera sjálfbær í þessum efnum og eigum ekki að lokka til okkar fólk frá þróunarríkjunum.

Á sumum svæðum í Afríku er ekki hægt að bólusetja ungbörn af því að það vantar lækna og hjúkrunarfólk. Við vinnum því gegn þúsaldarmarkmiðunum með því að taka heilbrigðisstarfsfólk frá þróunarríkjunum en öldruðum, sem þurfa á þjónustu heilbrigðisstarfsfólks að halda, fer ört fjölgandi í vestrænum samfélögum.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum benda á, eins og ég reyndi að gera í stuttu andsvari áðan, að alvarleg staða er komin upp í ríkisstjórninni varðandi loftslagsmálin. Það er ekki boðlegt að hæstv. utanríkisráðherra komi og segi að mikil vinna varðandi loftslagsmálin sé í gangi í utanríkisráðuneytinu. Gott ef satt væri en ráðherrarnir tala í kross. Hæstv. forsætisráðherra vill viðhalda íslenska ákvæðinu í Kyoto-bókuninni en það vill hæstv. umhverfisráðherra ekki gera.

Þótt rétt sé að við viljum fá þróunarríki inn í samninginn, svo sem Kína og Indland, og jafnframt ríki eins og Bandaríkin sem eru ábyrg fyrir 36% af losuninni, geta hæstv. ráðherrar ekki horft fram hjá mikilvægi þess að Ísland sýni trúverðugleika á erlendum vettvangi og tali einni röddu í þessu máli. Það þýðir ekki að tala út og suður í mikilvægum málum.