135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:53]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er engin sérstök ill meðferð á ríkisstarfsmanni að um hann gildi sama og um alla aðra starfsmenn viðkomandi stofnunar. Öllum starfsmönnum stofnunarinnar var sagt upp með nákvæmlega jafnlöngum fyrirvara. Þannig liggur það mál. Hæstv. utanríkisráðherra getur að sjálfsögðu betur útskýrt hvernig málum vék nákvæmlega að hverjum og einum að því leyti sem það á erindi í umræðu hér á hinu háa Alþingi.

Ég vil hins vegar undirstrika að þessi staða var ekki auglýst á sínum tíma. Ég held að það sé mikilvægt að menn slái nýjan tón og stöður af þessu tagi séu auglýstar og fram fari hæfnismat. Maður hlýtur að spyrja sig: Með hvaða hætti hefur slíkt hæfnismat farið fram í fortíðinni?

Mér finnst það óviðeigandi að koma hingað á hið háa Alþingi með nafnalista yfir fólk í öðrum stjórnmálaflokkum sem hefði nú verið hægt að stugga við. Hvað á slíkur málflutningur að þýða? Er það hlutverk stjórnmálamanna að tala í skildagatíð um að þeir hefðu nú kannski getað gert eitt og annað gegn einhverju tilteknu fólki? Er það markmið stjórnmálamanna að halda úti einhverjum listum yfir þá menn sem eru í stjórnmálaflokki og undir þá heyra? Hvers konar stjórnsýsla er þetta? Hvernig dettur fólki í hug að hugsa með þessum hætti og hvað þá tala með þessum hætti?

Allir eiga að vera frjálsir skoðana sinna og allir eiga að geta verið í flokki hvar svo sem þeir starfa og hvernig, þeir eiga að vera frjálsir framgöngu sinnar. Ráðherrar eiga ekkert með að halda úti einhverjum listum yfir það í hvaða flokki fólk sem undir þá heyrir er.

Það er tímabært að leiða önnur vinnubrögð fram. Menn eiga að fá að vera frjálsir skoðana sinna og þann grundvallarrétt eigum við að verja. Það á að auglýsa störf, gera stífar hæfniskröfur til þeirra sem sækja um og velja bestu umsækjendurna.