135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:17]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara aðeins ítreka það sem ég sagði hér áðan um samstarfið við Grænlendinga og taka það fram að þegar ég var á ferð á Ísafirði nú fyrir skömmu átti ég fund með fulltrúum úr atvinnumálanefnd Ísafjarðar þar sem þeir lögðu einmitt mikla áherslu á möguleikana sem gætu verið á samstarfi milli Ísafjarðar og Vestfjarða og síðan byggðarlaga á austurströnd Grænlands. Það má nefna í því sambandi að það hefur verið talað um að námuvinnsla fari fram í Scoresby-sundi á Grænlandi. Þaðan er innan við klukkutímaflug til Ísafjarðar en ég held að það sé nærri tveggja tíma flug þaðan og til Nuuk á vesturströnd Grænlands og síðan enn þá lengra til annarra staða sem geta veitt þessa þjónustu. Þarna geta því verið ýmsir möguleikar en auðvitað verður þetta að fara fram á forsendum Grænlendinga sjálfra og það verður að vera þannig að þeir sjái sér hag af samstarfinu.

Varðandi siglingaleiðina fram hjá landinu þá tek ég undir með þingmanninum að það er full ástæða til þess að athuga hvort hægt er að setja reglur og þá með hvaða hætti, varðandi skipaleiðir, stærð skipa og þann flutning sem hér fer þannig að það geti líka verið sá viðbúnaður sem þarf ef eitthvað kemur upp á.