135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:19]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu hennar og það ágæta yfirlit sem hún flutti þinginu um stöðu utanríkismála. Það er ljóst af ræðu hennar að það eru næg verkefni á sviði utanríkismála, mörg járn í eldinum og það hefur margt gerst og á mörgu verið tekið og málum þokað fram veginn frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum nú á vormánuðum eða í sumar öllu heldur.

Ég ætla að leyfa mér að byrja á því að tala í örfáum orðum um það sem ræða hæstv. utanríkisráðherra fjallaði ekki um sem eru Evrópumálin. Ég fagna því að ráðherrann skuli hafa tekið ákvörðun um að gera þeim málaflokki hærra undir höfði með því að taka Evrópumálin til sérstakrar umfjöllunar síðar en eins og fram hefur komið verða Evrópumálin rædd hér sérstaklega í janúarmánuði. Þetta er í samræmi við tillögur Evrópunefndarinnar um að ríkisstjórnin geri Alþingi sérstaka grein fyrir stöðu Evrópumála og það er ástæða til þess að fagna því að þetta sé nú komið til framkvæmda. Ég ætla ekki, af þeirri ástæðu að þau eru ekki hér sérstaklega til umfjöllunar, að fara nánar út í efnisatriði þess en ég tel mikilvægt að við förum almennt að taka utanríkismál og þá ekki einungis Evrópumálin, til dýpri umræðu hérna á þinginu og ég kem kannski aðeins að því í máli mínu.

Það má taka undir með utanríkisráðherra um að hnattvæðingin beri nú á dögum með sér ný einkenni og að skilin milli innanlandsmála og alþjóðamála fari minnkandi með því að heimsmálin verða einnig heimamál. Eins og fram kom í ræðu ráðherra er ljóst að verkefni okkar hér á þinginu eru í síauknum mæli tengd hinu alþjóðlega umhverfi. Ég tel að í störfum okkar á Alþingi þurfum við að horfa í auknum mæli til þessara breytinga og þá ekki síst þess að þingið verði virkara í aðhaldi sínu með utanríkisstefnunni, að þingið verði meira — við skulum segja bara hreinlega „á staðnum“ þar sem við erum þátttakendur og samráðið við utanríkismálanefnd og þingið almennt verði aukið. Ég sé jafnframt fyrir mér að fastanefndirnar komi í ríkara mæli að umræðu um þessi mál en verið hefur.

Ef við horfum fyrst til eins af stóru málunum sem fjallað er um í ræðu hæstv. utanríkisráðherra, þróunarsamvinnunnar, þá sjáum við í fjárlagafrumvarpinu að fjárveiting til þess málaflokks er aukin um 750 milljónum á næsta ári. Upphæðin saman, í þróunarsamvinnu og alþjóðastofnanir er eitthvað lægri, í kringum 500 milljónir, en vegna lækkunar til alþjóðastofnana sér maður að verið er að bæta verulega háum fjárhæðum í þróunarsamvinnuna. Ég held að það sé mikilvægt og það er í samræmi við langtímamarkmið að við aukum við framlög okkar í þennan málaflokk til þess að nálgast það að standa undir þeim markmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett um að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna verji 0,7% af þjóðarframleiðslunni til þróunarmála. Við erum á ágætum rekspöl með að fylgja eftir langtímamarkmiði okkar í þessu efni, eins og fram kom í ræðu ráðherrans, við erum að skríða yfir 0,30% viðmiðið en ætlum að vera komin í 0,35% árið 2009.

Það var bara allnokkuð metnaðarfullt markmið þegar það var sett þó að við værum ekki komin nema hálfa leið að því sem við sjáum að gildir hjá nágrannaþjóðum okkar og þeim sem við viljum helst bera okkur saman við og sumar þeirra eru reyndar farnar enn lengra fram úr okkur en sem þessu nemur. Það er engu að síður ánægjulegt að við skulum vera á réttri leið, að við skulum hafa haldið okkur á sporinu. Í því samhengi er það auðvitað sérstaklega ánægjulegt að við höfum haldið þannig á málum hér á Íslandi í efnahagslegu tilliti að við höfum full efni á því að standa undir þessu metnaðarfulla markmiði. Ég held að ef við setjum okkur þetta markmið og þessi auknu framlög í samhengi við framboð okkar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna dyljist það væntanlega engum hversu mikilvægt það er að við stöndum við það sem við höfum áður sagt í þessu efni.

Svo ég vitni aftur til ræðu hæstv. ráðherra þá fylgja þessum auknu framlögum auknar kröfur til fagmennsku og þingið hlýtur að gera auknar kröfur til að slík fagmennska sé til staðar. Það getur til að mynda fólgist í því að einstaka þingnefndir — þá er ég fyrst og fremst með utanríkismálanefnd í huga — geri sér far um að fara á vettvang þar sem við erum virk í þróunarsamvinnunni, geri sér far um að fara þangað sem við höfum einbeitt okkur að því að leggja lið en eins og hefur komið fram þá höfum við látið verulega til okkar taka í einstökum verkefnum. Það eru dæmi um verkefni þar sem við erum miðað við höfðatölu fremst meðal þjóða í framlögum. Við höfum lagt áherslu á að styðja við verkefni þar sem er unnið að jöfnuði og stuðningur við kvenfrelsi og aukna þátttöku kvenna í uppbyggingu nýrra samfélaga skiptir máli, þar má t.d. nefna UNIFEM.

Ástæðan fyrir því að þessi mál hafa ekki fengið mikla umfjöllun hér á þinginu er kannski sú að við höfum ekki verið að fylgja þessum verkefnum neitt sérstaklega eftir. Við höfum ekki lagt okkur fram við að kynna okkur starf þeirra alþjóðastofnana sem við verjum fjármunum til og ég held að þessu þurfum við að breyta. Þetta á líka og ekkert síður við um tvíhliða aðstoðina sem helst fer fram undir merkjum Þróunarsamvinnustofnunarinnar, þar þurfum við þingmenn í auknum mæli að gera okkur far um að fylgjast með. Ég ítreka það sem ég sagði áður í ræðu minni að á næsta ári ætlum við að verja 750 milljónum til viðbótar við það sem áður var gert til þessa málaflokks.

Auðvitað kallar það á að þingið fari að sinna málunum betur en gert hefur verið og ég leyfi mér einfaldlega að segja að reglur forsætisnefndar þingsins, til að mynda um utanferðir og fjármál og rekstrarkostnað til fastanefnda þingsins í þessu samhengi eru að verða úreltar ef þær eru ekki þegar orðnar það. Það gengur ekki að þingið sjálft setji sér svo þröngan ramma á sama tíma og það ver meiri fjármunum í þennan málaflokk. Ef við tölum almennt um utanríkismálin þá þurfum við ekki að gera samanburð nema örfá ár aftur í tímann til þess að sjá að við höfum aukið framlög til utanríkismálanna og það er vegna þess að við ætlum okkur að verða virkari þátttakendur þar og við höfum aðstöðu til þess, við höfum efnahagslegan styrk og eins og framboðið okkar til öryggisráðsins sýnir teljum við okkur eiga fullt erindi, sem skiptir ekki síður máli.

Það er víða komið við í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram þó að mér þyki hún kannski á köflum hafa verið dálítið einkennileg eins og þegar er fram komið þá hefur hún haft tilhneigingu til þess að einangrast í afskapalega afmörkuð ráðningarmál og annað þess háttar, en ég tel að í ræðu ráðherra sé komið inn á öll helstu atriðin sem við eigum að vera að horfa til og hugsa um nú á þessu þingi.

Við höfum í dag átt dálitla umræðu um íslensku friðargæsluna og það er í sjálfu sér rétt sem þar hefur komið fram að það er fagnaðarefni að við skulum ekki hafa orðið fyrir neinum sérstökum áföllum þar, við höfum ekki orðið fyrir neinu mannfalli. Sú stefna sem við höfum markað okkur þar, nú síðast með nýrri lagasetningu um íslensku friðargæsluna, er einmitt til þess hugsuð að reyna að forða því að slíkir atburðir eigi sér stað þó að við þurfum ávallt að vera því viðbúin að á átakasvæðum geti óvæntir atburðir gerst. Það er sérstakt fagnaðarefni í tengslum við íslensku friðargæsluna að okkur hefur tekist nokkuð farsællega að skilgreina þá þætti þar sem við höfum eitthvað fram að færa, þar sem við höfum sérþekkingu, og við sjáum það á þeim verkefnum sem okkur hafa verið falin að við höfum getað leyst þau af hendi með mikilli sæmd. Það á t.d. við um flugvellina sem við höfum komið yfir í borgaraleg not og það á líka við um mörg verkefni sem við höfum unnið á sviði heilbrigðisþjónustunnar og fleira væri hér hægt að tína til. Í því sambandi get ég nefnt sérstaklega verkefni UNIFEM í Pristína þar sem íslenska friðargæslan hefur starfað, þar sem var til að mynda unnið mjög mikilvægt grasrótarstarf í því að auka þátttöku kvenna í sveitarstjórnarmálum og skólum þess héraðs. Við höfum komið víða við og eins og ég sagði áðan tel ég að við á þinginu þurfum að fara að dýpka aðeins umræðuna um þessi mál og ekki eftirláta hana alfarið framkvæmdarvaldinu og taka hana einungis til umræðu hér í tveggja, þriggja tíma umræðum einu sinni til tvisvar á ári.

Ég ætla ekki að eyða miklum tíma af þeim takmarkaða tíma sem ég hef til þess að fjalla meira um framboð til öryggisráðsins en segi þó það að mér finnst því framboði hafa verið markaður afskaplega skynsamur farvegur með því að fara fram af ákveðinni hógværð og raunsæi þegar kemur að því að ákveða hversu miklu við ætlum að kosta til, en mér hefur fundist á umliðnum mánuðum á því sem mér hefur verið kynnt sem formanni utanríkisnefndarnefndar að við séum bara að ná býsna góðum árangri þegar horft er til þess hvað við getum þó gert miðað við það sem við ætlum okkur í þessum framboðsmálum. Það verður síðan að koma í ljós hvernig til tekst þegar upp úr kjörkössunum verður talið en mér sýnist allt stefna í að við séum að reka þetta framboð af mikilli sæmd.

Í lokin vil ég koma örstutt inn á öryggis- og varnarmálin. Það er ljóst að þegar við tókum við því hlutverki að taka yfir öll mannvirki í Keflavík og að miklu leyti eigin varnir var þar um að ræða gríðarlega stórt verkefni sem kom með skömmum fyrirvara í fangið á okkur. Það er algjörlega óhætt að segja í dag að okkur hefur tekist að tryggja snurðulausa yfirfærslu flugvallarins til íslenskra stjórnvalda og það er sérstök ástæða til þess að fagna því vegna þess að það var á engan hátt sjálfsagt mál. Það liggur jafnframt ljóst fyrir að mjög mikil vinna hefur hvílt á utanríkisráðuneytinu og starfsmönnum þess sem hafa greinilega staðið sig vel í því að tryggja að þessi farsæla yfirfærsla gæti átt sér stað. Enn eru þó ýmis verkefni óleyst og við eigum væntanlega von á á þessu þingi að lagt verði fram frumvarp um rekstur ratsjárstöðvanna og ýmis rekstrartengd mál sem enn eru til úrlausnar, en þessi mál eru öll í góðum farvegi og öryggisþátturinn sem hvað mestu máli skiptir virðist vera í öruggum höndum.

Hér rétt í lokin um viðskiptamálin en við höfum átt gríðarlegri farsæld að fagna í efnahagslegu tilliti, m.a. vegna aðildar okkar að EFTA og í gegnum EFTA að Evrópska efnahagssvæðinu. Varðandi fríverslunarsamningana er samningurinn sem núna er í deiglunni við Kína gríðarlega spennandi og við eigum eftir að sjá hvernig þær viðræður enda. En ég vil leyfa mér að fagna loftferðasamningnum sem við höfum náð að ljúka við Kanada og fleiri slíkir eru í burðarliðnum. Slíkir loftferðasamningar hafa gríðarlega mikla þýðingu fyrir íslenska flugrekendur.