135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:49]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að það er nauðsynlegt að hafa vel opna glugga og fá góða loftið inn, en það má kannski ekki hafa gluggana svo stóra og svo galopna að það verði ekkert skjól í húsinu og menn fjúki út úr því.

Hv. þingmaður vék að ummælum mínum um afstöðu mína til hnattvæðingar og virðist eitthvað hafa misskilið. Mín sýn er einmitt sú að hnattvæðing sé ekki einsleitt fyrirbæri og mér hefur alltaf þótt barnalegt og lítt uppbyggilegt að reyna að stilla hlutum þannig upp að menn séu annaðhvort með henni eða á móti. Það sem við tölum um sem hnattvæðingu felur í sér margar jákvæðar breytingar. Það er ýmislegt sem auðveldar lífið í dag vegna tækni, framfara og þekkingar, og mannkynið hefur að mörgu leyti betri aðstæður til að glíma við vandamál sín og meiri burði til þess en nokkru sinni fyrr með tækni og þekkingu að vopni og mikinn auð. En um leið er þessi geta mannkynsins að hluta til vandinn sjálfur, þ.e. sú mikla eyðsla, sóun og álag á auðlindir jarðarinnar sem lífshættir sérstaklega Vesturlanda valda. Ég vil þess vegna taka gagnrýna afstöðu til hnattvæðingarinnar þannig að sjá á henni bæði kost og löst og vera í liði með þeim sem berjast gegn hinum neikvæðum þáttum og vilja breyta þeim, þáttum eins og félagslegum undirboðum í þróunarríkjunum og að vinnuafl og auðlindir þróunarríkjanna sé blóðmjólkuð í þágu græðginnar á Vesturlöndum. Við líðum ekki barnaþrælkun, ekki mansal og vændi, ekki umhverfisfórnir, eyðingu auðlinda eins og regnskóganna í þágu vestrænna viðskiptahagsmuna. Ég veit ekki hvort þetta þýðir að við séum eitthvað ósammála en haldi hv. þingmaður að ég sé í þeim hópi sem vilji bara greiða atkvæði um það, já eða nei, hvort menn séu með eða á móti hnattvæðingu er það misskilningur.

Það var einu sinni stjórnmálamaður hér og ekkert fyrir löngu sem reyndi að stilla dæminu svona upp, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson. Hann sagði þetta einhvern tíma í útvarpsviðtali og vék orðum að þeim sem hér stendur, sagði að það væru undarlegir menn sem væru bara á móti hnattvæðingunni. (Forseti hringir.) Svo einfalt er málið ekki.