135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:30]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Utanríkis- og alþjóðamál verða æ fyrirferðarmeiri, einnig í íslenskum stjórnmálum, og í skýrslu utanríkisráðherra sem mælt var fyrir í morgun er að sjálfsögðu hreyft mörgum mikilvægum málum sem við Íslendingar þurfum að sinna. Að sjálfsögðu er engin ástæða til að gera lítið úr því sem vel er gert eða gera lítið úr möguleikum Íslands til að gegna þýðingarmiklu starfi í alþjóðamálum þó að við séum smátt ríki og fámennt, en til að við getum á trúverðugan hátt tekið að okkur mikilvægt hlutverk á alþjóðavettvangi verðum við að vera reiðubúin til að endurskoða og endurmeta frá grunni afstöðu okkar og viðhorf til umheimsins.

Komið hefur fram í máli margra ræðumanna í þessari umræðu að umfangsmiklar breytingar hafa orðið í alþjóðamálum og heimurinn er ekki sá sami í dag og hann var fyrir fáum árum og áratugum. Því miður er ekki mikið um það í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að verið sé að endurmeta stöðu okkar og viðhorf til umheimsins frá grunni. Að því leyti má kannski halda því fram að fylgt sé sömu stefnu í utanríkismálum og í tíð fyrri ríkisstjórnar og sú staðreynd að Samfylkingin hefur tekið þar sæti Framsóknarflokksins hefur litlu breytt að séð verður.

Mig langar að fara yfir nokkur helstu efnisatriði í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra, ég mun ekki hafa tíma til að fara í öll mál en látum það gott heita. Ég vil fyrst segja að ég tel jákvætt að hæstv. utanríkisráðherra boðar það í skýrslu sinni að flutt verði sérstök skýrsla um Evrópumál í janúar. Ég tel að full ástæða sé til að taka þau mál sérstökum tökum og fá sérstaka umfjöllun um Evrópumálin, enda er okkur öllum ljóst að þau eru orðin afskaplega fyrirferðarmikil í íslenskum samfélagsmálum og áhrif aðildar okkar að EES-samningum hefur að sjálfsögðu mjög víðtæk áhrif.

Mig langar hins vegar að velta því upp í þessu samhengi hvernig ríkisstjórnin hyggst standa að styrkingu umfjöllunar um Evrópumál innan þingsins. Eins og kunnugt er leggur Evrópustefnunefndin, sem skipuð var á sínum tíma og skilaði áliti undir lok síðasta kjörtímabils, sérstaklega til að starf Alþingis að Evrópumálum og tengsl þess við önnur þjóðþing í Evrópu verði styrkt. Meðal annars er lagt til að stofnuð verði sérstök Evrópunefnd innan þingsins og ég vil þess vegna gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún sér þetta fyrir sér verða að veruleika. Kemur t.d. til álita að það verði til einhvers konar útvíkkuð utanríkismálanefnd eða einhvers konar nefnd sem byggðist að grunni á utanríkismálanefnd og hugsanlega þingmannanefnd EFTA sem fjallar að sjálfsögðu mikið um Evrópumálin? Mér finnst mikilvægt að fá það fram enda þótt sérstaklega verði fjallað um Evrópumál síðar.

Um öryggis- og varnarmálin er að sjálfsögðu margt að segja. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór yfir það í morgun að brottför hersins hefði ekki verið nýtt sem skyldi til að endurmeta frá grunni stöðu Íslands og íslenska hagsmuni. Hann bar þá m.a. fram fyrirspurn um öryggismálanefndina sem boðað var að yrði skipuð sérstaklega til að móta stefnu í öryggismálum og meta íslenska hagsmuni og mér finnst þýðingarmikið að fá fram hvar það mál er statt. Það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert eins og fram kemur í skýrslu ráðherrans að skipuð hafi verið sérstök samráðsnefnd eða starfshópur með faglegan bakgrunn til að sinna starfi að því er varðar hættumat fyrir Ísland og ráðið sé ráðgjafi í því sambandi en slík nefnd kemur að sjálfsögðu ekki í staðinn fyrir þverpólitískan starfshóp í öryggismálum sem fjallar um hina pólitísku hagsmuni og hina pólitísku stefnumótun í þessum málaflokki. Mér finnst mikilvægt að fá það fram og kannski jafnvel mikilvægara en að fulltrúar í utanríkismálanefnd hafi fengið sérstakt leyfi til að fjalla um gögn frá NATO en sagt hefur verið að það sé ekki utanríkisráðuneytið sem veitir það leyfi heldur ríkislögreglustjóri. Það vekur auðvitað upp spurninguna um hvort dómsmálaráðherra sé þá loksins búinn að koma upp sinni leyniþjónustu, að greiningardeild ríkislögreglustjóra sé orðin að leyniþjónustu sem gefi þingmönnum grænt ljós á að þeir megi fjalla um viðkvæm utanríkis- og öryggisskjöl, en gott og vel.

Nýir samningar við Danmörku og Noreg hafa verið gerðir og um þá eru vafalaust skiptar skoðanir. Við eigum að sjálfsögðu margvíslega sameiginlega hagsmuni, t.d. að því er varðar umhverfisógnir á norðurslóðum sem hafa þegar komið fram í þessari umræðu en það má líka spyrja sig hvort ekki hefði þurft að fjalla miklu ítarlegar um það mál og á víðari grunni m.a. af Alþingi. Í þessu sambandi má líka velta því fyrir sér hvort varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 sé ekki orðinn úreltur. Hann hefur reyndar aldrei í hugum okkar margra, m.a. margra núverandi samfylkingarmanna, í gegnum tíðina haft mikla þýðingu fyrir Ísland en það má spyrja sig við þessar breyttu aðstæður hvort hann sé ekki algerlega úreltur og hvort ekki sé rétt að segja honum upp.

Mig langar líka að vekja máls á því hver staða mála er á varnarsvæðinu fyrrverandi sem núna er komið í borgaralega notkun. Það hefur verið heilmikil umræða um mengun á þessu svæði og þá vaknar spurningin hvort fyrir liggi ítarlegar rannsóknir á því hversu viðamikil mengunin á svæðinu er og hvernig staðið verði að hreinsun og hver kostnaðurinn við hana er. Ég vil líka velta hér upp spurningu um sprengjuleit og spengjueyðingu á varnarsvæðinu vegna þess að því hefur verið haldið fram að þarna séu svæði sem notuð hafi verið til sprengjuæfinga og þar séu enn ósprungnar sprengjur á svæði sem núna er komið í borgaraleg not, á svæði sem núna er skólasvæði. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort henni sé kunnugt um þetta og til hvaða ráðstafana hafi þá verið gripið.

Í ræðu ráðherrans var að sjálfsögðu fjallað um hlutverk okkar innan öryggisráðsins. Ég get sagt um það að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum, mörg hver a.m.k., stutt þá umsókn þótt skoðanir og áherslur hafi vissulega verið skiptar um þetta atriði. Ég hef verið í hópi þeirra sem hafa stutt það að Íslendingar sæktust eftir sæti í öryggisráðinu. Í því efni skiptir hins vegar gríðarlega miklu máli í hvaða leiðangur við ætlum ef við náum því marki að verða kosin í öryggisráðið, í hvaða leiðangur við ætlum og hvernig við ætlum að rækja þær skyldur. Í skýrslu utanríkisráðherra segir m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta: „… ríki sem ekki á sér forsögu sem flækt getur fyrir óhlutdrægri úrlausn deilumála“. Að þetta sé mikilvægt í samhengi við hlutverk okkar í öryggismálum. Þetta er auðvitað gott svo langt sem það nær en erum við algerlega forsögulaus í þessu efni? Við hljótum líka að velta því fyrir okkur.

Hvað með þátttöku okkar eða stuðning íslenskra stjórnvalda við stríðið í Írak? Eða þátttöku okkar í gegnum NATO í hernaðaraðgerðum? Er það alveg forsögulaust? Ríkisstjórnin hefur ekki enn beðist afsökunar á stuðningi íslenskra stjórnvalda við ólöglegt stríð í Írak og við hljótum að velta fyrir okkur hvaða hagsmunir réðu ferðinni þar. Voru það hagsmunir almennra borgara eða voru það sjónarmið mannréttinda og friðsamlegra lausna deilumála, svo notað sé orðalag úr ræðu hæstv. utanríkisráðherra, sem þar réði ferðinni? Nei, að sjálfsögðu ekki. Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra út af fyrir sig sagt það í umræðum á Alþingi að ríkisstjórnin harmi Íraksstríðið. Fjölmargir Íslendingar telja það ekki nægjanlegt og það veit hæstv. utanríkisráðherra auðvitað. Við teljum, mörg, alls ekki nægilegt að þátttakan í Írak sé hörmuð og látið þar við sitja.

Eins má auðvitað taka upp Palestínumálið og hlutverk Íslands. Ég held að við verðum að átta okkur á að til þess að geta gegnt hlutverki sáttaaðila eða þátttakanda í lausn deilumála verða menn að setja sig í spor allra aðila og skilja viðhorf, upplifun og reynslu allra aðila sem hlut eiga að máli. Þar má engan undanskilja og ég ætla ekki að draga dul á það að ég tel að utanríkisráðherra hafi í raun ekki staðið nægilega vel að því þegar hún fór í heimsókn til Miðausturlanda, ég hef látið það sjónarmið mitt koma fram opinberlega, sérstaklega vegna þess að utanríkisráðherra vildi ekki ræða við fulltrúa frá Hamas-samtökunum. Talað hefur verið um að það séu hryðjuverkasamtök en það má líka spyrja sig þeirrar spurningar sem frægur maður spurði á einum stað: Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Hverjir eru hryðjuverkamenn og hverjir eru ekki hryðjuverkamenn þegar komið er út í sríðsátök? Hverjir eru saklausir af því að hafa drepið mann og annan í stríðsátökum? Eru þá ekki allir aðilar þess máls í raun hryðjuverkamenn?

Það þurfti að sjálfsögðu stórhug að bjóða Bandaríkjamönnum og Ísrael byrginn og ég er sannfærður um að utanríkisráðherra hefði gert það af myndugleika ef hún hefði kosið það vegna þess að ég hef fulla trú á hæstv. utanríkisráðherra. Ég ætla að segja það líka að mér eins og mörgum öðrum sárnaði að það skyldi ekki gert, reynt að breiða sig svolítið út og segja: Við ætlum að tala við alla. Vegna þess að það er ekki hægt að mæta og reyna að leysa deilumál með því að vera bundinn á klafa gamallar hernaðarhyggju sem Bandaríkin og Ísrael hafa auðvitað staðið fyrir á þessu svæði. Mér og mörgum öðrum sárnaði að hæstv. utanríkisráðherra skyldi ekki taka þannig á málinu vegna þess að ég er sannfærður um að hún hefði gert það af miklum myndugleika. Tækifærið var ekki nýtt þar því miður.

Auðvitað getum við haldið áfram að tala um önnur svæði eins og Íran og hverjir mega eiga kjarnorkuvopn og hverjir mega ekki eiga kjarnorkuvopn. Eru það bara þeir sem Bandaríkjamenn leggja blessun sína yfir eða hvað? Þessi nálgun er auðvitað afskaplega þröng og hún byggir á þröngum afmörkuðum hagsmunum hernaðarhyggju sem Bandaríkin fara fyrir og við höfum því miður siglt þar í kjölfarið gagnrýnislaust. Alþjóðasamfélagið hlýtur að berjast fyrir eyðingu gereyðingarvopna en það á ekki einungis við um þá sem Bandaríkin tiltaka sem óvini sína, ríki sem í alþjóðamálum stillir hlutunum nánast alltaf upp hvítt og svart, í vini og óvini.

Ég ætla ekki að fara sérstaklega út í friðargæsluna í Afganistan, það hefur þegar verið gert hér, en mig langar að segja örfá orð um fríverslunarmál. Ég er almennt þeirrar skoðunar að aukin verslun og viðskipti milli þjóða séu mikilvæg og geti verið góð leið til að auka jöfnuð og sjálfstæði ekki síst meðal fátækari þjóða. Um leið er afar brýnt að heimsverslunin lúti alþjóðalögmálum um mannréttindi og mannhelgi, þar með talið að því er varðar jafnrétti kynja, vernd barna og ungmenna, baráttu gegn mansali, um umhverfisvernd, sjálfbæra þróun o.s.frv. Þessar áherslur finnst mér mikilvægt að við látum heyrast á alþjóðavettvangi.

Ráðherra vék að samstarfi og samráði við aðila vinnumarkaðarins þegar hún ræddi um fríverslunarmál, m.a. nefndi hún Alþjóðavinnumálastofnunina. Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því að löggilda hér á landi samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um uppsögn og ráðningarsamninga, þar sem kveðið er á um að sú meginregla gildi að atvinnurekandi megi ekki segja starfsmanni upp nema ákvörðun sé byggð á atvikum er varðar hæfni og háttsemi hans eða ástæðum sem varða atvinnureksturinn. Mér finnst mikilvægt að vekja máls á þessu hér og hvort utanríkisráðherra muni beita sér fyrir að innleiða þessa samþykkt.

Ég ætla að nefna örstutt þróunarsamvinnu og skyld mál. Að sjálfsögðu hljótum við að fagna því að framlög Íslands til þróunarsamvinnu séu að hækka þótt það vanti enn talsvert á að viðmiðuninni um 0,7% af þjóðarframleiðslu verði náð. Sömuleiðis fagna ég því að stórauka eigi framlög sem ráðstafað er til þróunaraðstoðar í gegnum íslensk félagasamtök og ég er a.m.k. sannfærður um að með þeim hætti munum við ná enn meiri og betri árangri í þágu þeirra sem helst þurfa á aðstoð að halda. Um leið vil ég líka stuttlega nefna málefni flóttamanna. Vandi flóttamanna eykst ár frá ári. Hvernig tökum við Íslendingar á því máli? Hvernig hyggst ríkisstjórnin taka á því og eru áform um að stórauka þátttöku Íslands í móttöku flóttamanna og standa undir skuldbindingum alþjóðasamfélagsins sem sæma okkur sem þjóð sem býr við mikla velsæld, því að hingað til hefur framlag okkar í því efni verið skammarlega lítið? Í þessu sambandi vil ég minna á að ýmis frjáls félagasamtök á Norðurlöndum, m.a. Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði kross Íslands og Íslandsdeild Amnesty International, hafa skorað á ríkisstjórnir Norðurlanda að fara að tilmælum og viðmiðunarreglum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og standa undir skuldbindingum sínum í því efni. Mig langar líka að heyra viðbrögð hæstv. utanríkisráðherra við því mikilvæga máli.