135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:08]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi fyrst og fremst þakka hv. þingmanni efnismikla ræðu. Hann drap víða niður fæti og nefndi fjöldamörg stór utanríkispólitísk atriði. Hann talaði um Afganistan og hvaða erindi friðargæslulið þar hefði. Hann talaði um þörf á baráttu gegn mansali og þrælahaldi um víða veröld. Hann talaði um Palestínu og það apartheid-kerfi sem þar viðgengst og hann talaði um alþjóðlegt viðskiptafrelsi.

Þess vegna kom mér afstaða hans gagnvart framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna svolítið á óvart. Ef menn hafa eitthvað að segja, eins og hv. þingmaður hefur, og vilja að Ísland tali fyrir ákveðnum sjónarmiðum er það sjálfgefið næsta skref fyrir íslenska þjóð að sækjast eftir aðild að öryggisráðinu. Það er sjálfgefið að þjóð sem telur sig hafa einhverja stefnu að boða, einhverju efni að miðla, leitist við að hafa áhrif á alþjóðavettvangi og mæla fyrir þeim þjóðþrifamálum. Það er nákvæmlega það sem framboðið til öryggisráðsins gengur út á og ég hrósa hv. þingmanni fyrir það og fagna því að hann lýsti vilja sínum til að styðja það verkefni nú.

Þá komum við aftur að öðru atriði, sem hann vék að í upphafi ræðu sinnar, en það er fjöldi sendiráða og því um líkt. Ég get deilt með honum því sjónarmiði að það skipti máli að sýna ráðdeild og sparsemi í því tilliti en skilvirk utanríkisstefna verður ekki rekin með öðrum hætti en þeim að fólk hætti sér út fyrir landsteinana. Menn verða að reyna að nálgast viðmælendur sína og þess vegna skiptir aðalmáli að um sé að ræða skilvirka uppbyggingu vel vinnandi fólks.