135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:10]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Árna Páli Árnasyni að skilvirk utanríkisstefna verður ekki til nema menn hætti sér út fyrir landsteinana. Það var ekki það sem ég var að fjalla um.

Ég var hins vegar að tala um hið steinrunna sjónarmið, gömlu steinrunnu hugmyndafræðina, sem varð til og mótaðist á 16. öld, um það að hafa sendimenn í erlendum ríkjum með þeim hætti sem gert er og þróast hefur. Ég tel það ekki vera skilvirka utanríkisþjónustu.

Að sjálfsögðu þurfa menn að mæta þangað sem þarf að mæta en ég tel ekki rétt að menn séu kyrrsettir á ákveðnum svæðum við að gera harla lítið eða ekki neitt — á sumum stöðum hygg ég að sú sé raunin. Þegar ég tala um sendiráðavæðinguna á ég við það að menn hafa ekki verið að byggja upp skilvirka utanríkisþjónustu heldur verið að koma upp hlutum sem þjóna öðrum hagsmunum en þeim.

Varðandi framboð til öryggisráðsins var ég að lýsa sjónarmiðum mínum eins og þau hafa verið, en nú standa menn frammi fyrir orðnum hlut. Það þýðir ekki að berjast um fallin vígi, þau eru fallin. Menn verða þá að fara í einhver önnur vígi. Öllum finnst mjög óskynsamlegt að berjast gegn Héðinsfjarðargöngum eða Kárahnjúkavirkjun núna þótt menn hafi einhvern tímann haft önnur sjónarmið. Hið sama á við hér. Þegar hlutirnir liggja fyrir, við nálgumst endapunktinn í kapphlaupinu og íslensk stjórnvöld hafa lagt mikið á sig, eigum við að sjálfsögðu að leggja áherslu á að styðja við þau sjónarmið þó við höfum á einhverjum tíma talið að við ættum að gera aðra hluti.

Eitt atriði vil ég leyfa mér að nefna til viðbótar, og syndga þá kannski aðeins upp á náðina, en það eru samtökin Polisario í Vestur-Sahara sem ég tel að við Íslendingar eigum að lýsa yfir stuðningi við.