135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:31]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrsluna og þá ræðu sem hún flutti hér í morgun. Þar kveður við nýjan tón miðað við það sem við höfum upplifað í utanríkismálum á Íslandi undanfarin ár og er ég glaður yfir því. (Gripið fram í.) Það er ákaflega skiljanlegt að hún segi það.

Það skiptir máli hvað heyrist frá Íslandi á alþjóðavettvangi og það skiptir máli hvaða viðhorf og sjónarmið við höfum gagnvart öðrum þjóðum og heimshlutum. Þó að íbúatalan á Íslandi sé lág nýtur þjóðin virðingar í alþjóðasamfélaginu og ekki síst fyrir það að landið og rödd þess hefur verið mikið á friðarveg.

Mig langar til að geta þess eða segja frá því að þegar ég var í Menntaskólanum í Reykjavík, þeim ágæta skóla, fengum við nemendur að velja að skrifa ritgerðir. Þetta var einmitt á þeim tíma þegar valdaránið var gert í Síle sem lyktaði þannig að lýðræðislega kjörinn forseti féll, Allende, og Pinochet hershöfðingi kom inn og í framhaldi af því komu skelfilegir ógnartímar í Síle sem við höfum mörg getað séð eða margir hafa séð í kvikmynd sem gerð var um ákveðin atvik sem gerðust á þessum tíma sem heitir Missing og held að öllum væri hollt að sjá þá kvikmynd.

Það sem var erfitt fyrir herforingjastjórnina í Síle og margar aðrar herforingjastjórnir var hvernig alþjóðasamfélagið brást við og gerði þeim um margt erfitt og smám saman molnaði þetta allt í sundur. Núna er forseti Síle kona sem heitir Bachelet og nýlega var verið að kjósa konu í Argentínu og það eru gleðilegir ferskir vindar sem maður upplifir að eru farnir að blása pólitískt í Suður-Ameríku, í Venesúela og víðar. Ég vona að þessir vindar og þessir straumar verði til góðs fyrir fólkið sem býr í þessum löndum. Þarna býr mjög fátækt fólk, við þekkjum sögurnar um börnin í Rio de Janeiro, litlu strákana sem jafnvel hafa verið skotnir af lögreglunni þegar hefur þurft að hreinsa til, en í þessum löndum er maður farinn að sjá að meiri félagshyggja, meiri samstaða með fólkinu er farin að ryðja sér til rúms og það er mjög gott. Það er líka mjög gott þegar fólk sem býr í þessum löndum fær að njóta þeirra ávaxta og auðlinda sem jörð þessara landa gefur, eins og olían í Venesúela og annað. Þar er mikil fátækt en það eru til næg auðæfi.

Það á við um mörg lönd í veröldinni að þar eru miklar auðlindir og verðmæti eins og margir kalla en fólkið sem býr í löndunum, almenningur, alþýðan fær ekki að njóta þeirra vegna þess að það eru svo fáir einstaklingar sem stjórna auðlindinni, sem hafa yfirráð yfir auðlindinni. Við þurfum að hjálpa þessu fólki og leggja okkar orð á vogarskálarnar til þess. Við verðum líka að gæta okkar eigin lands í þessu, að auðlindir Íslands fari ekki bara í örfárra hendur, hvort sem verið er að tala um orkuna í iðrum jarðar eða fiskinn sem syndir í kringum landið. Þess vegna skiptir miklu máli hvað við segjum og hvað við leggjum til í samfélagi þjóðanna og þegar við tölum í þessa veru þá eru það lóð á vogarskálar réttlætis.

Í sumum löndum eru stríð og ógnir og skelfing og ég hugsa oft um það þegar ég sé nýfædd börn hér á landi hvað þau eru heppin að hafa fæðst hér, hvað þau eru heppin að vera íslenskir ríkisborgarar. Á sama degi fæðast börn annars staðar í veröldinni þar sem móðirin getur ekki einu sinni vitað hvort barnið muni lifa tvö eða þrjá daga, vegna stríðs, hungurs, matarskorts eða annars. Mér fannst ánægjulegt þegar hæstv. utanríkisráðherra lýsti hér yfir og lagði áherslu á það að við styddum dyggilega við þróunarstarf og að við hjálpuðum fátæku fólki sem nánast hvern dag þarf að berjast fyrir lífi sínu. Ég gleðst yfir því og það er náttúrlega í anda þeirrar hugsunar sem íslensk börn eru alin upp, í kristnum anda.

Ég held að það gæti skipt máli í samræðunni á milli heimshluta og hópa að trúarleiðtogar töluðu meira saman en þeir gera, páfinn, forsvarsmenn múhameðstrúarmanna og annarra trúfélaga, því að oft rekja menn átök og deilur til trúarbragðanna og kenna þeim um, en eðli og boðskapur flestra trúarbragða er kærleikur, vinátta og samkennd. Orð trúarinnar og orð trúarbragðanna ættu oftar að koma inn í þessar umræður út frá þeim grunni sem þau byggja á en ekki út frá einhverjum bókstöfum sem einstakir túlkendur eða kennimenn hafa lagt fram.

Eitt gladdi mig líka mjög að heyra í ræðu hæstv. utanríkisráðherra í morgun, það var um samstarfið við Grænland og það verk sem hún er að byrja, að auka samskipti við grænlensku þjóðina og koma á aukinni samvinnu þar á milli eins og hefur gerst t.d. í sambandi við Færeyjar. Það er mjög ánægjulegt hvað samstarf þessara þjóða hefur verið að aukast og áhugi þjóðanna á því.

Ég sit í Vestnorræna ráðinu og mig langar að segja frá því að á aðalfundi þess í Grænlandi voru samþykktar tillögur, t.d. um björgunarmál, að þessar þjóðir mundu standa fyrir sameiginlegum björgunaræfingum í tengslum við hlýnun jarðar eða þar sem ísinn er að bráðna og skip eru farin að sigla norður fyrir. Þessar siglingaleiðir í kringum lönd okkar eru orðnar æ fjölfarnari og fleiri skip sigla þar um, bæði með olíu og annan farm sem getur verið mjög hættulegur ef hann fer út í náttúruna. Skemmtiferðaskipum hefur einnig fjölgað gríðarlega mikið og um borð í þeim eru fleiri hundruð manns ef ekki þúsundir og við þurfum náttúrlega að vera viðbúin því ef slíkt skemmtiferðaskip lenti í miklum háska. Þá þarf að vera viðbúnaður til að hjálpa fólkinu þar um borð, sem oft er ekki í góðri eða mikilli æfingu, það eru oft eldri borgarar sem eru í þessum skipum og viðbúnaður þarf að vera góður og öruggur.

Önnur ályktun var samþykkt í Grænlandi, það var um sameiginlegar rannsóknir á fiskstofnum Grænlands, Færeyja og Íslands og þetta er eitt af því sem við þurfum að huga að, að efla fiskrannsóknir og hefur verið talað mikið um. Ein tillagan fjallaði um að það yrði komið upp upplýsingamiðstöð, að Evrópusambandið í Brussel kæmi sér upp upplýsingamiðstöð um hvað er að gerast í sambandi við loftslagsbreytingarnar og gæti veitt upplýsingar og annað.

Að lokum langar mig til að geta þess að ein tillagan fjallaði um jafnréttismál. Hún fól það í sér að gert yrði námsefni um ólíkt hlutskipti og kjör kvenna á norðurhjara veraldar, til að skapa umræðu til að fólk fari að hugsa um stöðu kynjanna. Þetta er náttúrlega efni sem þarf að þróa og menntamálaráðuneytin eða einhverjir samstarfshópar mundu koma þessum orðum í verk.

Í tengslum við Vestnorræna ráðið fór ég til Kanada á ársþing Norðurheimskautsráðsins og á þeim fundi var fjallað um hlýnun jarðar og hvernig við þurfum að bregðast við aukinni umferð skipa og öðru og þar var mikið fjallað um að við þurfum að hafa aukinn viðbúnað í björgun. Þar var líka flutt erindi eða kynnt rannsókn sem fjallaði um drykkjusýki og félagsleg vandamál sem eru geigvænleg í þessum löndum. Þarna kemur náttúrlega til okkar kasta í tengslum við þróunarhjálp og aðstoð, með þekkingu okkar á þessum sviðum í sambandi við læknisfræði og ýmislegt annað þar sem við getum komið að.

Allt þetta sem við erum að gera skiptir miklu máli og það er hlustað á okkur alveg eins og við hlustum á aðra og þess vegna gleðst ég yfir því þegar við höfum utanríkisráðherra sem hefur í hjarta sér góðar hugsanir og kærleiksríkar hugsanir til fólks og hugsanir um það að geta lagt lóð á vogarskálarnar í því að hjálpa fólki til að komast frá örbirgð og hungri sem er allt of mikið af í veröldinni.