135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:45]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka fyrir góða umræðu í dag. Ég held að hún hafi að mörgu leyti verið tímamótaumræða og kannski verið meiri samhljómur en oft áður um meginlínurnar í utanríkismálum á hinu háa Alþingi.

Ég vildi sérstaklega drepa á nokkur atriði úr umræðunni þegar líður að lokum hennar. Hér hefur verið rætt nokkuð um Afganistan og ekki að ófyrirsynju. Vissulega er það svo að friðargæsluliðið í Afganistan stendur frammi fyrir vandamálum. Þau eru þó nokkuð svæðisbundin og við höfum ekki lið á þeim svæðum þar sem hættan er mest. Ég held hins vegar að þar sé verkefni sem við þurfum að halda áfram að fylgjast náið með. Ég held að það sé mjög aðkallandi að utanríkismálanefnd geri hið sama og utanríkismálanefndir í nágrannalöndum okkar hafa gert, heimsæki Afganistan og kanni aðstæður. Það er einfaldlega ekki eðlilegt að sú þingnefnd sem hefur með höndum lýðræðislegt eftirlit með framkvæmdarvaldinu að þessu leyti hafi engar sjálfstæðar forsendur til að afla sér upplýsinga og kynna sér stöðu mála af eigin raun. Ég hugsa að það mundi ekki tíðkast á nokkru öðru málasviði að þingnefnd þyrfti að lúta að öllu leyti upplýsingaöflun, frumkvæði og könnun máls af hendi framkvæmdarvaldsins en gæti ekki aflað sér upplýsinga sjálf. Ég tel mjög aðkallandi að þetta verði gert sem allra fyrst.

Í umræðunum áðan komu fram mörg atriði sem verðskulda frekari umræðu. Í ágætri ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur rakti hún mörg atriði sem ég var henni fyllilega sammála um. Hún vakti sérstaka athygli á því að öryggi væri í dag nátengt loftslagsmálunum. Þetta er gott dæmi um þá útvíkkun og breytingu öryggishugtaksins sem orðið hefur á undanförnum árum, þ.e. öryggisógnir eru metnar með öðrum hætti en áður og takmarkast ekki lengur við hefðbundna ógn af vopnum heldur eru líka aðrar ógnir og hættur. Það er hárrétt sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi, að loftslagsmálin og breytingar á umhverfinu vegna gróðurhúsaáhrifa eru ein af stærri ógnum sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Þróunarsamvinnan sem felur í sér samvinnu með þróunarríkjum um bindingu jarðvegs, um sjálfbæran landbúnað, um minnkun útblásturs, um nýjar leiðir til iðnvæðingar án notkunar jarðefnaeldsneytis, er jafnframt fjárfesting í öryggi okkar. Þetta er með öðrum orðum hluti af fjárfestingum okkar í öryggi. Okkur er mikilvægt að líta á fjárveitingar til þróunarsamvinnu með þeim hætti. Þær eru ekki eyðsla heldur fjárfesting í sjálfbæru samfélagi til lengri tíma, hinu hnattræna samfélagi sem við erum öll hluti af og þátttakendur í hvort sem okkur líka betur eða verr.

Við höfum í dag rætt mikið um hlutverk hins opinbera í þróunarsamvinnu og utanríkisráðherra ræddi í ræðu sinni um nýbreytni í þá átt að laða fyrirtæki til liðs í því efni. Í máli hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur fannst mér gæta heldur neikvæðs gamaldags viðhorfs til fyrirtækja í þessu efni, líkt og ef fyrirtækjum væri boðið til slíkra verka fælist í því einhvers konar ávísun á arðrán, misnotkun eða misbeitingu aðstöðu gagnvart fátæku fólki. Ég held þvert á móti að það geti einfaldlega verið skynsamleg viðskiptatækifæri fyrir fyrirtæki að vinna að þróunarsamvinnuverkefnum, um slíkt eru til mörg dæmi.

Við höfum gott dæmi úr friðargæsluverkefnum okkar á Balkanskaga, en þeim tengdist t.d. ágætt fyrirtæki, Össur, sem kom að því verkefni og sá sér hag í að framleiða gervilimi fyrir fórnarlömb stríðsátaka. Við vitum til þess að íslensk fyrirtæki eru að eigin frumkvæði með mjög metnaðarfull þróunarsamvinnuverkefni í Afríku. Íslensk fyrirtæki koma að mjög merkilegu verkefni sem verið er að hleypa af stokkunum í Afríku núna, sem felst í því að atvinnulausu fólki verði borgað fyrir að rækta jörð og binda með því kolefni, binda jarðveg og forðast gróðureyðingu. Þar er einfaldlega viðskiptahugmynd sem felst í því að fólk á Vesturlöndum geti með þeim hætti kolefnisjafnað og jafnframt stutt þróunarsamvinnu og sjálfbært atvinnulíf í Afríku til lengri tíma litið.

Varðandi öryggisráðsframboðið sérstaklega vil ég leggja áherslu á að ég held að framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sé ekki markmið í sjálfu sér. Það á ekki að vera markmið utanríkisstefnu okkar og geti aldrei verið markmið eitt og sér. Það er hins vegar eðlileg birtingarmynd þess að vera sjálfstætt ríki með sjálfstraust til að starfa á alþjóðavettvangi. Ef ríkið hefur utanríkisstefnu sem við erum stolt af og teljum sóma af að bera fram þá er eðlilegt að við sækjumst eftir því að bera hana fram sem víðast og af sem mestum myndarskap. Öryggisráðsframboð byggist á slíku sem er birtingarmynd þess erindis sem við eigum við aðrar þjóðir.

Ég nefndi áðan að í New York hefði ég nýverið séð verkefni sem utanríkisþjónustan var að hleypa af stokkunum gagnvart fátækum eyríkjum í Karíbahafi og Kyrrahafi sem er samvinnuverkefni um frumkvæði í auðlindanýtingu, annars vegar nýtingu sjávarauðlinda og hins vegar ráðgjöf um nýtingu jarðvarma. Það var mjög athyglisvert þegar við hittum fulltrúa hinna fátækari ríkja að sjá viðbrögð þeirra. Mér er það sérstaklega hugstætt að sendiherra Gíneu-Bissá nefndi að það væri sérstakt ánægjuefni að sjá fordæmi Íslands og kynnast því vegna þess að Ísland hefði fyrir frekar skömmu síðan verið fátækt ríki en tekist að komast til bjargálna á eigin forsendum. Ísland hefði ekki farið að forskrift Alþjóðabankans um að gefa velferðarsamfélag upp á bátinn heldur þvert á móti byggt upp öflugt velferðarsamfélag. Það er þróunarríkjum gríðarlega mikilvægt að fá að sjá að fátækt sé ekki viðvarandi ástand heldur sé raunverulegur möguleiki fyrir ríki að vinna sig út úr henni með skynsamlegum stjórnunarháttum. Hann þakkaði þess vegna fyrir að fá að kynnast þessu fordæmi.

Þessi ræða ein og sér fannst mér réttlæta framboð okkar til öryggisráðsins. Hún sýndi með skýrum hætti að við höfum þar erindi að reka. Hún sýndi að fulltrúar þeirra ríkja sem standa frammi fyrir erfiðum spurningum um framþróun samfélags síns meta það mikils að fá að kynnast fordæmi okkar. Þeir hafa áhuga á því út frá eigin forsendum. Þarna skiptir líka máli sú staðreynd að við ógnum engum. Við erum ekki eitt af stóru ríkjunum sem eru tortryggileg vegna þessa. Þetta held ég að eigi að vera okkur hollt veganesti, að við áttum okkur á því hvaða hlutverk við getum rekið og að við komum fram af sjálfstrausti og myndarskap í því verkefni.

Ég vil að síðustu þakka aftur fyrir umræðuna og fyrir mjög góða ræðu ráðherra í upphafi.