135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:19]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu sinnar vitnaði hv. þingmaður til þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram, um hvort kapítalisminn sé vandamálið í alþjóðasamskiptum. Af því að hér er farið að vitna í umræður á Norðurlandaráðsþinginu, þá sagði hann á Norðurlandsráðsþinginu um daginn, þá sagði hann þar, með leyfi forseta:

„Så svaret er faktisk, at vi må slå kapitalismen ned, for den er det største problem, når det gælder en bæredygtig udvikling i verden.“

Þarna er ég í grundvallaratriðum ósammála hv. þingmanni og hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur hér fyrr. Ég held einmitt að eina leiðin til þess að tryggja sjálfbæra þróun sé að þróa markaðshegðun fyrirtækja í gegnum alþjóðalög og alþjóðarétt og frumkvæði réttsýnna þjóða, eins og okkar, á þann veg að allir vinni saman. Kapítalisminn er nefnilega ekki þannig að einn þurfi að tapa ef annar græðir. Það eru mýmörg dæmi um og góð hagfræðileg rök fyrir því að allir geta grætt. Það er úreltur skilningur á kapítalismanum að einn þurfi að tapa ef annar græðir.

Varðandi þetta tiltekna atriði held ég því að það sé mjög mikilvægt að við horfumst í augu við það að eina leiðin til að tryggja sjálfbæra þróun hlýtur að vera að aga viðskiptalífið þannig að viðskiptalífið vinni með sama hætti á alþjóðavettvangi eins og við höfum komið því fyrir að viðskiptalífið vinnur hér á Norðurlöndunum og í þeim ríkjum sem við viljum helst bera okkur saman við í nágrenni okkar. Það er að segja að viðskiptalífið hegði sér gagnvart þróunarríkjunum með ábyrgð og félagslegt réttlæti í huga.