135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:28]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mig langar í seinni ræðu minni að gera ýmislegt að umtalsefni sem ég náði ekki að koma inn á áðan. Í ræðu hæstv. utanríkisráðherra kemur fram að norðurslóðir séu nýtt forgangsmál eða nýtt kjarnamál í íslenskri utanríkisþjónustu. Ég er sammála því. Við ræddum aðeins fyrr í dag um rammasamningana varðandi okkar öryggismál og björgunarmál, rammasamninga sem við höfum gert við Norðmenn og Dani. Ég vil sérstaklega minnast á það hér, virðulegi forseti, að utanríkisnefnd norska Stórþingsins var hér í heimsókn um daginn og þá barst þessi rammasamningur sérstaklega í tal. Maður fann fyrir mjög miklum áhuga Norðmanna á þessum rammasamningi, að utanríkisnefnd norska þingsins mun greinilega fylgjast mjög vel með þessu máli og styðja það í hvívetna að gerður verði fyllri samningur að þessu leyti. Það er alveg ljóst að augu heims eru að færast meira upp á norðurslóðirnar, á norðurheimskautið og svæðið þar í kring og ég tel að það séu ýmis tækifæri fyrir okkur varðandi útrás á norðurslóðum.

Komið hefur fram að á Barentssvæðinu eru um 20% olíu- og gasauðlinda heimsins og það vita allir að það er mjög mikill óstöðugleiki á olíuvinnslusvæðunum í Miðausturlöndum og þess vegna renna mjög margir hýru auga til olíuvinnslu hér uppi á Barentshafinu til framtíðar litið. Talið er að á næstu 15 árum muni fyrirtæki á þessu sviði og þeim tengd fjárfesta á norðurslóðum, þ.e. á Barentssvæðinu, fyrir um það bil 2.000 milljarða dollara en það eru um 140 þús. milljarðar íslenskra króna. Það eru því alveg gífurlegar fjárfestingar fram undan á svæðinu og mjög mikilvægt að vel takist til með alla uppbyggingu á þeim svæðum sem eru þarna í grenndinni.

Það er alveg ljóst að Norðmenn hafa þessi mál mjög ofarlega á sinni dagskrá. Norska ríkisstjórnin skipaði nefnd ellefu ráðherra, ráðherranefnd undir forustu Jonasar Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, og sú ráðherranefnd á að skipuleggja þessi uppbyggingaráform. Það er nú gaman að skoða hvaða verkefni hún hefur. Hún á til dæmis að skoða hvernig eigi að jafna út tekjuinnstreymi frá fyrirtækjunum, setja upp einhvers konar jöfnunarsjóð þannig að öll sveitarfélög á svæðinu njóti góðs af uppbyggingunni. Þetta leiðir auðvitað hugann að þeim málum hjá okkur. Við höfum oft rætt þetta í þinginu varðandi stórfyrirtæki sem borga inn til sveitarfélaganna að fá sveitarfélög njóta mjög mikils af því. En Norðmenn ætla sem sagt að koma upp einhvers konar útjöfnunarkerfi varðandi uppbygginguna þarna í norðri. Það er líka lögð mikil áhersla út frá öryggishagsmunum á svæðinu að tryggja framþróun og réttlæti varðandi framtíðina. Það er alveg ljóst að það er mjög mikill munur á stöðu íbúanna á þessum svæðum. Ég vil aðeins nefna það því þetta er umræða sem minnir mann svolítið á umræðuna sem fór fram þegar Eystrasaltsríkin urðu sjálfstæð. Þá var lögð ofuráhersla á það af hendi norrænna ríkja, og norræn ríki litu á það sem öryggismál, að koma Eystrasaltsríkjunum til aðstoðar við að sækja fram til að minnka velferðargjána sem var á milli Eystrasaltsríkjanna annars vegar og Norðurlandanna hins vegar. Það tókst mjög vel og allt önnur staða er þar nú heldur en var. Það hefur ekki tekist að gera eins vel á norðurslóðum en til stendur að reyna að bæta það.

Ég vil nefna hér að það er mjög mikill munur á félagslegri stöðu íbúa til dæmis í Norður-Noregi annars vegar og Norður-Rússlandi hins vegar. Meðalaldur er hár í Norður-Noregi en í Norður-Rússlandi er meðalaldur kvenna 72 ár en meðalaldur karla er einungis 58 ár. Þetta er ótrúlega lágur meðalaldur karla. Og morðtíðni er 20 sinnum meiri í Norður-Rússlandi heldur en í Norður-Noregi og þar eru líka sjálfsmorð tíðari þannig að það er mjög mikilvægt að bæta stöðu Rússa og það er eðlilegt að líta á það sem öryggismál.

Norðurlandaráð hefur beitt sér í þessu. Ég get nefnt að velferðarnefnd Norðurlandaráðs fór einmitt ekki fyrir löngu síðan til Múrmansk sem er á Kólaskaganum til að skoða útbreiðslu fjölónæmra berkla, eða multiresistent tuberkulosis, en þeir eru í sókn á þessu svæði. Við skoðuðum bæði sjúkrahús og fangelsi. Það vakti mann mjög til umhugsunar um hversu mikilvægt væri að aðstoða Rússa við að bæta stöðuna í sínu landi og það er eðlilegt að líta á það sem öryggismál.

En varðandi uppbygginguna á Barentssvæðinu þá er alveg ljóst að það verður geysilega mikil uppbygging þar á næstu árum og tel ég að þetta sé nokkuð sem utanríkisþjónustan eigi að skoða sérstaklega af því ég held að að séu mikil viðskiptatækifæri fyrir okkur á þessu svæði. Við erum með mjög öfluga heilbrigðisþjónustu sem við getum að einhverju leyti flutt út og við erum með öflugt tæknifólk sem hefur mikla þekkingu, þekkir til starfa á köldum svæðum. Ég held því að ýmis tækifæri séu fyrir okkur varðandi útrás á norðurslóðum. Ég vil því gjarnan beina því hér, virðulegur forseti, til hæstv. utanríkisráðherra að þetta er mál sem ég tel að við eigum að skoða sérstaklega af því það verður svo mikil uppbygging. Það er líka jákvætt fyrir okkur að taka þátt í þessari uppbyggingu.

Varðandi svæðin í norðri og austri — ég nefndi áðan Eystrasaltsríkin — þá vil ég líka nefna það, því við vorum nú mjög innblönduð í þau mál á sínum tíma þegar þáverandi utanríkisráðherra Jón Baldvin Hannibalsson beitti sér sérstaklega fyrir því að lýsa yfir stuðningi við sjálfstæði þeirra og við vorum fyrsta ríkið sem gerðum það og maður finnur það oft þegar maður fer um í sambandi við utanríkismál að Litháar, Eistar og Lettar muna vel eftir þessu og eru þakklátir og hafa þetta á hraðbergi, að núna beinast sjónir Norðurlandanna og að vissu leyti Evrópusambandsins líka verulega að ríkjunum sem koma þar austan við. Ég vil nefna sérstaklega eitt ríki sem er Hvíta-Rússland. Þar er ekki mjög góð staða eins og við vitum í dag. Lúkasjenkó stýrir þar. Það er ekki hægt að kalla Hvíta-Rússland lýðræðisríki eins og málum er háttað þar núna. En Norðurlandaráð hefur tekið frumkvæði að því að nálgast samvinnu við Hvíta-Rússland.

Um daginn var haldin ráðstefna í Vilníus sem er fyrsta ráðstefna sinnar tegundar þar sem Norðurlandaráð tekur það frumkvæði að skipuleggja ráðstefnu með Eystrasaltsríkjunum og fulltrúum frá Hvíta-Rússlandi. Og hvaða fulltrúar voru þetta frá Hvíta-Rússlandi? Jú, þetta voru bæði fulltrúar frá Lúkasjenkó, frá þinginu, og líka fulltrúar stjórnarandstöðunnar. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar eru nú ekki margir á þingi. Þeir eru fangelsaðir margir hverjir. Einn komst til dæmis ekki á þessa ráðstefnu sem haldin var í Vilníus af því viðkomandi var í fangelsi og þá var sendur varaformaður viðkomandi flokks. (Gripið fram í.) Þetta er því allt með svolítið öðrum hætti en hjá okkur. En þessi fundur tókst með eindæmum vel. Þarna var verið að ræða loftslagsmál og að sjálfsögðu voru líka rædd lýðræðismál. Það stóð þeim mjög nálægt að tala um þau. Allir voru sammála um það sem sóttu þessa ráðstefnu að reyna að endurtaka hana. Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir Norðurlöndin að reyna að teygja sig til austurs og byggja brýr til þessara landa sem liggja austan við Eystrasaltsríkin og að það sé mikið öryggismál. Ég vona að áframhald verði á þessum samskiptum okkar við meðal annars Hvíta-Rússland.

Virðulegur forseti. Ég vil líka koma aðeins inn á Hoyvíkursamninginn eða vestnorrænt samstarf. Í ræðu hæstv. utanríkisráðherra segir:

„Hoyvíkursamningurinn við Færeyjar er tvíhliða samningur um fríverslun og ég hef orðið þess áskynja í vestnorrænni samvinnu hversu miklu sá samningur skiptir. Við gleðjumst líka yfir opnun aðalræðisskrifstofu Færeyinga hér við Austurvöll og í utanríkisráðuneytinu hefur nýr kraftur verið settur í að skoða samstarfsmöguleika við Grænland.“

Ég vil taka undir þetta. Ég tel að Hoyvíkursamningurinn sé mjög mikilvægur. Hann var ræddur sérstaklega á þemaráðstefnu sem var haldin á Húsavík núna í sumar sem Vestnorræna ráðið hélt um Vestur-Norðurlönd og fríverslun. Hæstv. utanríkisráðherra var á þessari þemaráðstefnu og þar kom fram, virðulegur forseti, í máli Alequ Hammond, ráðherra utanríkismála Grænlands, að það væri viss ótti á Grænlandi um að fyrirtæki þar mundu verða tekin yfir af hinum vestnorrænu löndum, ekki síst Íslendingum og það gæti leitt til annars konar nýlenduhlutskiptis Grænlands sem nýlendu vestnorrænna viðskiptamanna. Það er svolítið sérstakt að sjá þetta og þessi orð féllu þarna í sambandi við Hoyvíkursamninginn.

Þarna kom líka fram hjá Magna Laksáfoss, fjármálaráðherra Færeyja, að sá ágæti ráðherra hvatti fjármálaráðherra Grænlendinga til þess að gerast aðilar að fríverslunarsamningnum sem allra fyrst. Hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók undir orð fjármálaráðherrans færeyska þar sem aðild mundi að öllum líkindum styrkja efnahagslífið þar í landi og gera Grænland óháðara Danmörku samhliða auknum viðskipta- og atvinnutækifærum.

Það kom síðar fram á ráðstefnunni að grænlenski utanríkisráðherrann, Aleqa Hammond, óskaði eftir því að sá möguleiki yrði kannaður hvort Grænland gæti tekið upp hluta af fríverslunarsamningnum en verið undanþegið öðrum að minnsta kosti til að byrja með og þannig aðlagað sig að breyttum aðstæðum. Og hún, utanríkisráðherra Grænlands, hvatti stjórnvöld á hinum vestnorrænu löndunum til að ræða þann möguleika. Ég vil því nota tækifærið hér, virðulegi forseti, og athuga hvort að hæstv. utanríkisráðherra geti komið inn á það hér í seinni ræðu sinni hvort þetta sé einhver möguleiki, hvort þetta sé til skoðunar og hvort þetta sé yfirleitt hægt því það væri auðvitað mjög gaman ef Grænlendingar gætu verið með í fríverslunarsamningi á þeim nótum sem Hoyvíkursamningurinn er eða sem næst því.

Virðulegi forseti. Ég vil einnig koma inn á fullveldi. Í ræðu hæstv. utanríkisráðherra kemur fram að við deilum fullveldi meðal annars á sviði Sameinuðu þjóðanna. Ég var að kíkja á greinar sem Gísli Tryggvason lögmaður hefur skrifað, núverandi talsmaður neytenda, þar sem hann veltir fyrir sér fullveldi sérstaklega í sambandi við EES-samninginn. Ég vil taka undir með hæstv. utanríkisráðherra sem hefur sagt að hún telji að það eigi að skoða stjórnarskrá Íslands varðandi fullveldi. Ég tel eðlilegt að það sé gert. Nú stendur yfir vinna í stjórnarskrárnefnd sem við reyndar vitum ekkert nákvæmlega hvar stendur og formaðurinn hefur auglýst eftir leiðbeiningum í því, núverandi formaður. En ég vil sérstaklega taka undir að það er eðlilegt að þetta sé skoðað varðandi ákvæði í stjórnarskránni um fullveldi.

Ég vil einnig aðeins minnast á þessa skemmtilegu umræðu sem hefur orðið hér um kapítalismann, sjálfbæra þróun og loftslagsmál af því þau orð féllu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni á Norðurlandaráðsþinginu að mesta ógnin væri kapítalisminn og að það ætti að slá kapítalismann niður, þetta væri ógn við sjálfbæra þróun. Ég deili ekki þessari skoðun. Ég tel reyndar að óheftur kapítalismi geti auðvitað gengið út í öfgar. En það þarf að fá fyrirtækin með til að aðstoða okkur við að koma á sjálfbærri þróun. (Gripið fram í.) Ég tel ekki eðlilegt að tala um kapítalisma með þessum hætti eins og hér var gert. Ég vil líka minna á sósíalismann. Hún er nú ekki kræsileg staða sósíalismans þegar maður skoðar umhverfismálin annars vegar. Maður getur nú bara litið til Sovétríkjanna í því sambandi. Þar eru alveg gríðarleg umhverfisvandamál og þau sköpuðust þar af því að ekki var alveg nógu mikill kapítalismi í því ríki. Þar var farið (Gripið fram í.) algjörlega rangt í málin. Að sjálfsögðu er miðjustefnan best í þessu þar sem er blandað hagkerfi og menn nýta drifkraftinn á markaðnum með skynsömum hætti en tryggja félagslegan jöfnuð samhliða.

Svo vil ég hér að lokum, af því að ræðutími minn er búinn, taka undir þann tón sem er í ræðu hæstv. utanríkisráðherra og reyndar var kominn í tíð hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, um þróunarsamvinnu og konur. Ég tel mjög mikilvægt að við styrkjum konur. Það hefur sýnt sig í öllum rannsóknum varðandi þróunarmál að þær krónur sem fara í að styrkja starf kvenna skila sér betur til baka í meiri framförum en þær krónur sem fara í annars konar verkefni. Þannig að ég styð þennan tón.