135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:46]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þm. Karli V. Matthíassyni að það eru góðir sprettir hjá Vestnorræna ráðinu um þessar mundir og starfið þar er að styrkjast miðað við hvernig ég sé það en ég reyni að fylgjast eins vel með því og ég get. Það var spennandi að lesa um þessa ráðstefnu á Húsavík og ég er sammála því að það er mjög jákvætt að Grænlendingar vilji skoða það að koma a.m.k. inn í hluta af samningnum ef það er tæknilega hægt.

Það var líka afar jákvætt að fá tillögu til Norðurlandaráðs frá Vestnorræna ráðinu um að löndin ættu að samhæfa sín mál varðandi björgun. Í tillögunni var sérstaklega dregið fram að slíkt sé eðlilegt af því að Bandaríkjamenn hafa dregið verulega saman viðveru sína í vestnorrænu löndunum, Íslandi, Grænlandi og Færeyjum, og miðað við hvernig Vestnorræna ráðið upplifir það, og ég er sammála því, hefur það veikt stöðu okkar, bæði í öryggismálum og ekki síður í björgunarmálum. Við erum að reyna að koma til móts við það með því að styrkja okkur með ýmsum rammasamningum og auknu samstarfi. Samstarf við Dani er auðvitað mjög mikilvægt að þessu leyti fyrir Grænlendinga og Færeyinga af því að Danir eru með bæði flugvélar og skip í kringum Ísland, Grænland og Færeyjar. Danir eru þarna í eftirlitsferðum reglulega þannig að þeir hafa mikla viðveru hér. Það er þess vegna mjög eðlilegt að þetta sé tekið upp.

Ég vil líka nefna að Vestnorræna ráðið kom með tillögu á sínum tíma um jafnréttisstarf og mér sýnist það blómstra núna í Færeyjum. Þar verða þingkosningar í síðasta lagi um miðjan janúar og þar hefur verið tekin upp tillaga sem Vestnorræna ráðið (Forseti hringir.) samþykkti um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum.