135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:50]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fáum örugglega gott tækifæri til að ræða þessi mál dýpra þegar hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandanna, Össur Skarphéðinsson, verður með sína skýrslu hér til umfjöllunar. Ég vil þó koma því að hér þar sem formaður Vestnorræna ráðsins hefur nú talað að ég tek undir að þetta er mjög mikilvægt starf og vegna þess sem ég kom inn á áðan, um samþykkt Vestnorræna ráðsins um að auka hlut kvenna í stjórnmálum, væri mjög skemmtilegt ef Vestnorræna ráðið gæti farið yfir þau mál aftur, t.d. að loknum þingkosningum í Færeyjum en þær verða í síðasta lagi seinni partinn í janúar. Okkur fór verulega aftur hér á landi varðandi hlut kvenna á þingi í þarsíðustu kosningum. Það lagaðist aðeins í síðustu kosningum en við náðum samt ekki fyrri prósentutölu svo staðan er slakari hér en hún var um tíma. Það hefur því orðið bakslag á Íslandi varðandi hlut kvenna á þinginu.

Það sama gerðist í Færeyjum, í síðustu kosningum þar fækkaði konum á þingi þannig að segja má að þar hafi orðið 14 ára bakslag. Að vísu er svolítið erfitt að tala um þetta í árum og hlutföllum af því að þingmenn eru það fáir að ein til tvær konur gera mjög hátt útslag í prósentutölum en nú eru aðeins þrjár konur á færeyska þinginu af 32 þingmönnum. Vestnorræna ráðið kom með fyrrnefnda ályktun og unnið er eftir ákveðnu prógrammi í Færeyjum til að reyna að auka hlut kvenna. Það væri því vel við hæfi, og ég beini því til formanns Vestnorræna ráðsins, að gera kannski smáyfirlit yfir stöðuna að loknum kosningum í Færeyjum og taka þá stöðuna á öllum vestnorrænu löndunum, Íslandi, Grænlandi og Færeyjum.