135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:08]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þau svör sem fengust en saknaði ýmislegs sem hæstv. utanríkisráðherra kom ekki inn á. Ég dró m.a. fram í fyrri ræðu minni hve sérstakt það væri að á sama tíma og Ratsjárstofnun væri í viðkvæmri stöðu og þar ættu sér stað miklar breytingar væri forstjórinn beðinn um að hætta. En látum það vera ef hæstv. ráðherra vill ekki koma inn á það. Í seinni ræðu hæstv. utanríkisráðherra kom fram að við ættum að sýna staðfestu varðandi friðargæsluna í Afganistan, og tók hæstv. ráðherra undir ræðu hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Þá hlýt ég að spyrja af hverju sama staðfestan var ekki sýnd varðandi Írak. Írakar báðu um verkefni sem farið var í, NATO-verkefnið, og það verkefni var að sjá svo um að þeir gætu gætt eigin öryggis. Það er mjög erfitt ástand bæði í Afganistan og Írak en í Írak var ekki sýnd staðfesta. Ákveðið var að draga til baka þennan eina fulltrúa, þessa einu konu, sem við vorum þar með í upplýsingastarfsemi. Mér fannst þetta röng ákvörðun. Á sama tíma og við erum að sækjast eftir sæti í öryggisráðinu erum við að hoppa út úr NATO-verkefni sem á sér stoð í þremur ályktunum öryggisráðsins, að ég held. Á sama tíma erum við að biðja NATO um að sjá um loftvarnir okkar. En við ætlum aldeilis ekki að vera með þeim í verkefni í Írak. Það er ekki mikil staðfesta. Mér finnst þessi málflutningur mjög misvísandi.