135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum.

[15:05]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að sú ákvörðun sem stjórn Landsvirkjunar tók síðastliðinn fimmtudag skipti verulegu máli. Þar er mörkuð stefna varðandi nýtingu þeirrar orku sem ætlunin er að afla á næstu árum af hálfu fyrirtækisins. Stefnan byggist á því að hámarka það verð sem fæst fyrir orkuna en jafnframt nota tækifærið og dreifa áhættu í viðskiptum með því að auka fjölbreytni í hópi viðskiptavinanna. Þetta er hægt vegna þess að nú eru fjölmörg fyrirtæki að leita eftir orkunni sem er nýmæli í 40 ára sögu Landsvirkjunar og rúmlega það, þannig að uppi er ný staða hvað þetta varðar. Vissulega þýðir þetta að óbreyttu að ekki verður reist álver í Þorlákshöfn eða nýtt álver á Suðvesturlandi. Ég vek athygli á því sem segir í fréttatilkynningu Landsvirkjunar, með leyfi forseta: „Landsvirkjun mun þess vegna ekki ganga til samningaviðræðna að sinni við fyrirtæki sem hyggja á byggingu nýrra álvera á Suður- og Vesturlandi.“ Þessi ákvörðun fyrirtækisins skýrir sig sjálf að mínum dómi. Ég tel að hún sé skynsamleg eins og sakir standa og hún muni ekki hafa áhrif á fyrirhugaða byggingu álvers á Bakka við Húsavík sem er í undirbúningi af hálfu fyrirtækisins vegna þess að það er utan þess landsvæðis sem tilgreint er og heldur ekki á þá uppbyggingu sem önnur orkufyrirtæki hafa hugsað sér að taka þátt í suður í Helguvík.

Hvað síðar verður varðandi framtíð Alcans í Straumsvík er það náttúrlega úrlausnarefni þeirra stjórnenda sem þar eru en mér er tjáð að fyrirtækinu standi til boða að kaupa nokkurt magn af raforku til að gera skipulagsbreytingar og auka afköst í verksmiðju sinni eins og hún er núna.