135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum.

[15:10]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar um að selja ekki frekari raforku til áliðnaðar markar að sjálfsögðu heilmikil tímamót. Hún hefur heilmikil áhrif, hún hefur pólitísk áhrif í atvinnuuppbyggingu en hún er hins vegar tekin af stjórn Landsvirkjunar á viðskiptalegum forsendum.

Um er að ræða 15 orkukaupendur, 15 aðila sem keppa um orkuna. Það er af sem áður var, nú eru margir um hituna. Stjórn Landsvirkjunar tók þá mjög svo skynsamlegu ákvörðun að mínu mati að selja orkuna til aðila sem eru að framleiða annað en ál. Verið er að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf, fleiri undirstöður. Um er að ræða að ekki verða teknar ákvarðanir um nýjar álverksmiðjur á suður- og suðvesturhluta landsins. Um er að ræða uppbyggingu í hátækniiðnaði í nýjum greinum og á þeim á að grundvalla nýtingu á óseldri orku til framtíðar. Því er þessi ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar sérstakt fagnaðarefni af því að útkoman er sú að atvinnulífið verður fjölbreyttara, orkufrekur iðnaður verður miklu fjölbreyttari en áður þegar öll eggin voru sett í sömu körfuna. Hvort sem um er að ræða uppbyggingu netþjónabúa, kísilflöguverksmiðju fyrir sólarpanela eða hvað annað sem út úr viðræðum stjórnar Landsvirkjunar kemur, þá ber allt að sama brunni að þetta markar ákveðin skil í atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Ekki verða fleiri ný álver á þessum hluta landsins á næstu árum og missirum, það liggur ljóst fyrir eftir þessa ákvörðun. Það er fagnaðarefni fyrir þá sem vilja sjá fjölbreyttari atvinnuhætti, fjölbreyttari uppbyggingu í hátækniiðnaði og nýjum greinum sem honum tengjast. Þess vegna er sú ákvörðun sem hér er komin fram fagnaðarefni og ég held að flestir taki undir það. Ég hef a.m.k. ekki heyrt neinn harma þá ákvörðun á nokkurn hátt.