135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum.

[15:12]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Maður verður alltaf meira og meira hissa á þessari ágætu ríkisstjórn. Ráðherrarnir virðast tala hver í sína áttina. Ef þeir væru um borð í litlum árabát væru þeir að róa í mismunandi áttir og það hefur aldrei verið talið gott, og yfirlýsingar hæstv. umhverfisráðherra eru auðvitað í allt aðra átt en hæstv. forsætisráðherra talar.

Við erum að ræða um Landsvirkjun og nú eru Landsvirkjun og stjórn Landsvirkjunar að taka ákvörðun og gefa út yfirlýsingu um að þeir ætli ekki að selja meiri raforku til álvera þrátt fyrir að sveitarfélög eins og Þorlákshöfn hafi staðið í undirbúningi við að fá til sín álver og fólk í Árnes- og Rangárvallasýslum þar sem mest af orkunni sem við notum á Ísland er framleidd vill auðvitað sjá þessa orku nýtta heima í héraði. Af því verður ekki, alla vega ekki hvað varðar álver í Þorlákshöfn eða áliðngarða eins og fyrirhugaðir voru í Þorlákshöfn. Væntanlega verður ekki af því í þessari atrennu en mögulegt er auðvitað að nýta orku í auknum mæli á Hellisheiði og þá væri hugsanlegt að nota hana til ákveðinna verka í Þorlákshöfn og nágrenni. Þetta kemur manni verulega á óvart, ég hélt að stjórnvöld mundu móta stefnu í þessum málum en létu ekki einhverja kjörna fulltrúa í Landsvirkjun ákveða hvernig farið verður með raforku í framtíðinni.