135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[15:43]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um efnistök í þessu máli hér í þinginu. Þetta er málefni sem er eðlilegt að ráðherrann beiti sér fyrir að breyta lögum um, til þess að unnt sé að framkvæma hér á landi rannsóknir sem eru nauðsynlegur grundvöllur framfara og þingflokkur Frjálslynda flokksins styður lagabreytingar í þá átt. Hins vegar komu fram athugasemdir við málið í þinglegri meðferð í mars sl. frá vísindasiðanefnd og reyndar biskupi Íslands líka en sérstaklega var áberandi að ekki var tekið tillit til athugasemda vísindasiðanefndar í breytingartillögum heilbrigðisnefndar á sl. vori. Þar finnst okkur að betur megi gera og að nauðsynlegt sé að afmarka betur heimildina sem er verið að opna. Það er nauðsynlegt að það sé ljóst, sérstaklega á þessu sviði, hvaða heimildir er verið að opna þannig að þær verði ekki teygðar lengra en pólitískur stuðningur er í raun við.

Ég þakka því hæstv. ráðherra fyrir ágætar undirtektir við fyrirspurnunum og vænti þess að hann beiti sér fyrir því ásamt öðrum að heilbrigðisnefnd skoði frumvarpið vandlega með athugasemdir vísindasiðanefndar í huga og leitist við að gera breytingar á því til að mæta þeim brýnu athugasemdum sem eiga fullan rétt á sér enn þá.

Ég vil svo líka segja, virðulegi forseti, að mér finnst — og kannski eru það bara einhverjir fordómar af minni hálfu — en mér finnst það afar ógeðfellt ef það verða viðskipti með fósturvísa. Einhvern veginn finnst mér það bara hlutur sem eigi að vera óhugsandi en mér sýnist hins vegar að það hafi bara ekki verið horft á þann þátt málsins við samningu frumvarpsins og það þurfi að gæta að því.