135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[15:45]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég rakti áðan er frumvarpið byggt á þeirri vinnu sem hafði verið unnin hvað þetta varðar. Tekið var tillit til athugasemda frá heilbrigðis- og trygginganefnd á síðasta þingi, eðli málsins samkvæmt. Það er kannski eitt af því sem við þurfum að eiga við í nútímanum, við erum komin svo langt í þróun og okkar tækni að upp koma ýmis álitaefni og siðferðileg mál sem við þurftum ekki að glíma við áður. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að heilbrigðis- og trygginganefnd og þingmenn setji sig vel inn í efni frumvarpsins og fari vel yfir málið. Ég efast ekki um að það verði gert á þessu þingi og við komumst að niðurstöðu sem við getum verið flest, vonandi öll, orðið sátt við. Eins og hv. þingmaður nefndi eru flestir sammála um markmið þessa frumvarps.