135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[15:54]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því ef rétt er hjá hv. þingmanni að frumvarpið muni loka fyrir þá möguleika að fósturvísar gangi kaupum og sölum. Hins vegar er ég með umsögn vísindasiðanefndar til heilbrigðis- og trygginganefndar sem send var 9. mars í vetur þar sem gerðar eru athugasemdir við málið þótt nefndin styðji málið. Rétt er að taka fram að vísindasiðanefnd styður málið en telur rétt að gera breytingar á því, eins og ég gat um fyrr í umræðunni.

Í áliti vísindasiðanefndar kemur fram að reglur um varðveislu stofnfrumulína séu ekki skýrar í frumvarpinu. Nefndin spyr hvort ekki sé æskilegt að samræma þær reglur að einhverju leyti almennum reglum um varðveislu lífsýna og spyr enn fremur, virðulegi forseti, hvort ekki sé rétt að skýrar reglur verði settar um forsendu gjaldtöku fyrir nýtingu stofnfrumulína. Nefndin er greinilega á þeirri skoðun að það vanti eitthvað upp á lagaákvæðin í þeim efnum. Það væri fróðlegt ef hv. þingmaður gæti bætt úr þekkingu minni í þeim efnum.