135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[15:57]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umsögn vísindasiðanefndar er dagsett 9. mars og stíluð á heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis. Málið er tekið úr nefndinni 13. mars, fjórum dögum síðar. Mér finnst líklegt að það hafi verið lagt fyrir nefndina áður en málið var tekið út. En ég skal ekkert um það fullyrða af því að ég sat ekki í nefndinni þá. Álitið liggur fyrir og mér finnst að taka eigi tillit sem þess sem þar kemur fram. Ég sakna þess að það hafi ekki verið gert við endurflutning frumvarpsins, að ekki hafi verið tekið mið af þeim athugasemdum sem vísindasiðanefndin lagði fyrir Alþingi á síðasta vetri.

Ég hlýt að spyrja: Hvers vegna er það svo? Hvað felst í því að ekki er tekin afstaða til eða tekið neitt undir þær athugasemdin sem nefndin gerir? Þýðir það að heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin séu ósammála vísindasiðanefnd og hafni ábendingum nefndarinnar eða þýðir það eitthvað annað? Það kann að vera. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það. En mér heyrðist á hæstv. heilbrigðisráðherra að hann hefði fullan vilja til þess að í þinglegri meðferð málsins yrðu þessar athugasemdir skoðaðar af fullri alvöru og ég treysti því að formaður nefndarinnar sé sama sinnis.

Ég vildi að lokum segja, virðulegi forseti: Ég sé því miður ekki að í þessu frumvarpi sé lagt bann við því að umframfósturvísar verði seldir. Ég sé það ekki. Það kann að vera að ég hafi ekki áttað mig á því í lagatextanum þegar hann hefur verið lesinn saman við gildandi lög en þess vegna spyr ég um málið og bið um að verða leiðréttur dragi ég ranga ályktun. En þetta er það sem mér sýnist á málinu, að það sé heimilt.