135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[16:13]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum breytingu á lögum um tæknifrjóvgun með síðari breytingum. Við erum að ræða hér afskaplega viðkvæmt mál þar sem rekast á tæknidýrkun og mannhelgi, og ekki í fyrsta sinn.

Öll okkar lagasetning gengur meira eða minna út á það að viðhalda og gæta helgi mannsins, helgi mannlegs lífs, helgi einstaklingins. Þetta er ákveðin söguleg þróun. Á víkingatímanum þótti nú eðlilegt að bera út börn og það var viðurkennt í því þjóðfélagi og því í siðferðikerfi sem þá var. Þessu hefur fyrir löngu verið hætt sem betur fer. Þar hefur mannhelgin sigrað. Við leyfum hins vegar enn þá fóstureyðingar þar sem rekast á hagsmunir móður og óborins barns, allt að 12 vikum. Þar höfum við ákveðin tímamörk á helgi mannsins sem eru eiginlega bara tímamörk. Það er ekkert sem gerist í fóstrinu við 12 viku sem réttlætir það að því sé eytt en ekki deginum seinna.

Mörk mennskunnar eru alltaf að verða óljósari og óljósari, herra forseti. Seinni endinn, þ.e. dauðinn, hann er að verða sífellt óvissari vegna tækniframfara. Þar rekast líka á tækni og tæknidýrkun og mannhelgi. Sem betur fer eru menn farnir að átta sig á því að til er nokkuð sem heitir lífsgæði, að það sé ekki endilega markmiðið að halda manni eins lengi á lífi og hægt er tæknilega. Sá þáttur er því í sæmilegri umræðu þó hann mætti kannski vera meiri. Komin eru lyf og tækni og tæki til þess að halda fólki á lífi ótrúlega lengi þó að í rauninni sé kannski ekki mikil von. En menn halda alltaf í vonina.

Mörk mennskunnar við upphaf lífs eru líka að verða sífellt brotakenndari og óljósari og þar koma inn fyrirbæri eins og fósturvísar. Ég ætla rétt aðeins að ræða það fyrirbæri. Það er þannig að það er galdrað fram með hormónagjöf mikið af eggfrumum í legi konu og þau eru tínd út og blandað saman við sæði og það verða til fósturvísar sem eru frjóvguð egg og hvert um sig er einstaklingur sem aldrei kemur aftur. Fósturvísirinn ber með sér hvað einstaklingurinn verður hár, hver háralitur hans verður, augnlitur og allt útlit mannsins er þegar ákveðið í fósturvísinum. Það eina sem þessi fósturvísir þarf er leg konu til þess að verða að einstaklingi. Það er reyndar dálítið mikilvæg forsenda. Úr þessum fósturvísum eru svo valdir þrír, fjórir og settir upp eins og kallað er. Þar kemur fyrsti siðferðilegi vandinn. Ég á bara dálítið erfitt með að setja mig í spor þess sem velur út þessa þrjá því hann er í rauninni að setja einstaklinga á. Hann er í rauninni að setja á menn eða fólk og að sjálfsögðu er í fósturvísinum líka kveðið á um kyn. Það liggur alveg fyrir. Þarna eru sem sagt valdir út einhverjir þrír, fjórir og settir upp. Stundum verða til þríburar. Allir verða að fólki. Stundum hafnar legið einhverjum eins og gengur í náttúrunni og kannski kemst einn upp og kannski enginn. Svo eru alls konar hrakfarir á leiðinni eins og fósturlát og annað slíkt.

Þetta er fyrsta siðferðilega vandamálið. Svo erum við með önnur vandamál sem tæknin leyfir, eins og skimun fyrir hnakkaþykkt sem veldur ákveðnum sjúkdómi og er farið að leyfa núna og ákveðin foreldrasamtök hafa barist gegn vegna þess að þeim finnst það vera að setja niður þá einstaklinga sem fæðast þannig fatlaðir. Það má alveg færa rök fyrir því. Þarna rekst sem sagt aftur á tæknidýrkun og mannleg reisn eða mannhelgi.

Svo kemur að því hvað við gerum við þá fósturvísa sem eftir verða. Þeim er yfirleitt hent og ekki er gert mikið veður út af því þó að í raun sé verið að henda einstaklingum sem gætu orðið til. Allt er ákveðið og kemur aldrei aftur. Eða þá að menn tala um eins og í þessu frumvarpi að leyfa á þeim rannsóknir í ákveðinn tíma, þ.e. að umframfósturvísa megi rannsaka í þágu tækninnar til þess að öðlast dýpri skilning á alls konar hlutum sem verða og geti leitt til lyfja sem geta bjargað mannslífum og svo framvegis. Og þar er sagt að innan ákveðins tíma þurfi að eyða þeim.

En svo er hérna líka gert ráð fyrir kjarnaflutningi og þá fer málið dálítið að vandast vegna þess að þar er í raun verið að búa til varahluti, varahluti í fólk nákvæmlega eins og varahluti í bíl. Tekin er fruma úr lunga manns sem er veikur í lunga og kjarninn úr þeirri frumu settur í fósturvísi sem heldur áfram að dafna og skipta sér og getur með tímanum myndað lungnavef sem gagnast þessum manni. Svona skil ég þetta alla vega. Í rauninni er þá kominn varahlutur í þennan mann sem fósturvísir sem hafði alla burði til að verða fullkominn einstaklingur ef hann hefði fengið leg — ef menn hefðu sem sagt séð honum fyrir forsendum — honum er skipt út, kjarninn úr honum er tekinn út og annar kjarni settur í staðinn og það verður að varahlut. Þetta er siðferðilegi vandinn sem við erum að glíma við.

Ég vil bara að menn átti sig alveg fullkomlega á því hvað er að gerast. Auðvitað má segja að kjarninn sem er tekinn út sé einstaklingurinn sem var og honum sé þá bara hent eins og til stóð alltaf en nýi kjarninn sé þá einstaklingurinn sem gaf kjarnann, þ.e. nákvæmlega eins og menn gefa blóð eða annað slíkt og það nýtist honum sjálfum meira að segja.

Ég ætla nú ekki að fara meira út í þetta en ég vil geta um sögu þessa frumvarps. Það voru fluttar hérna þingsályktunartillögur nokkrum sinnum. Ég var eindregið á móti þeirri fyrstu því þar var aðaláherslan á tæknidýrkunina og minni áhersla lögð á siðferðilegu vandamálin. Síðan kom annað frumvarp sem ég studdi vegna þess að þar voru menn farnir að tala um siðferðilegu vandamálin meira en tæknigleðina. Ég gat sem sagt samþykkt það því ég tel að þetta frumvarp eigi rétt á sér vegna þess hvað það getur bjargað mannslífum. En menn þurfa bara að hafa hitt algjörlega á hreinu hvar þeir snerta siðferðið.

Í glasafrjóvgun geta komið furðulegar niðurstöður sem menn hafa svo sem leikið sér með eins og til dæmis þegar kona verður systir ömmu sinnar eða eitthvað slíkt sem leiðir þá til þess að þær eiga þá sameiginlegan afa og föður og svo framvegis og það geta komið upp mjög skrýtnar niðurstöður sem í rauninni rugla öllu okkar kerfi varðandi erfðir og annað slíkt sem menn eru jú að glíma við. Á þessi kona að erfa ömmu sína sem ömmu eða sem mömmu eða sem systur? Það geta komið upp alls konar svoleiðis vandamál.

Önnur vandamál sem koma upp og menn þurfa að hafa algerlega á tæru er að það er markaður fyrir slíkar afurðir, þ.e. stofnfrumur, kjarnabreyttar frumur og yfirleitt með líffæri manna. Við höfum heyrt alveg hræðilegar sögur sem maður vonar nú að séu bara ekki réttar þar sem tekin eru líffæri úr föngum í sumum löndum og þau svo seld. Það er markaður fyrir lungu og lifur og hjörtu og svo framvegis þannig að þetta er dálítið ógeðfellt allt saman. Ég held að við þurfum að vera mjög mikið á varðbergi eins og umræðan hefur bent á þannig að ekki myndist markaður með þessar frumur eða stofnfrumur eða annað slíkt þannig að við séum að vinna með mannhelgina í huga.

Eins og ég gat um þá er ég hlynntur þessu frumvarpi alveg sérstaklega vegna þess hvað umræðan um siðfræðina er mikil og ég býst við því að hv. nefnd sem fær þetta til umsagnar og ég er í muni ræða enn frekar, og hafa góðan tíma til þess, herra forseti, öll þau álitamál sem geta komið upp og hafi líka heimild — og að sjálfsögðu hefur hún heimild — til þess að breyta frumvarpinu ef á þarf að halda ef nýjar upplýsingar koma fram um vandamál í siðfræði, vandamál um þetta og hitt.

Ég ætla nú ekki að hafa þetta miklu lengra en ég styð frumvarpið af því ég tel að að sú tækni sem menn tala um þarna geti linað þjáningar mjög margra, geti bjargað lífi sumra og svo framvegis þannig að ég hef trú á tækninni þó ég hafi þessar siðferðilegu spurningar við framkvæmd hennar.