135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[16:28]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú frumvarp sem er svipað því sem afgreitt var úr heilbrigðis- og trygginganefnd sl. vor en þá átti ég sæti í hv. nefnd. Ég er mjög sammála frumvarpinu og breytingum sem gerðar voru á því vegna þess að það eru breytingar sem nefndin lagði til við afgreiðslu málsins í vor. Búið er að gera nokkuð góða grein fyrir eðli frumvarpsins og meðan málið var til umfjöllunar í nefndinni sl. vetur var farið með það af mikilli varfærni.

Ég tek undir orð hv. ræðumanna á undan mér. Skoða þarf frumvarp um tæknifrjóvgun reglulega og ég fagna því að verið sé að endurskoða ákveðin ákvæði í lögunum, svo sem að veita einstæðum eða ógiftum konum sömu réttindi og lesbískum konum en vilji um það kom mjög skýrt fram í nefndinni sl. vetur. Ég tel að skoða þurfi annan þátt en það er hlutur ungs fólks sem fær krabbamein og verður ófrjótt vegna geislameðferðar. Taka þarf tillit til þess og veita því sérstök kjör. Ég veit að það eru mikil útgjöld fyrir þá sem lenda í slíku og þurfa jafnvel að láta geyma sæðisfrumur eða eggfrumur áður en farið er í meðferð. Ef til vill eru þau geymd í mörg ár og alltaf greitt fyrir bæði meðferð og svo geymslu þann tíma. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka þennan þátt með þegar lögin verða endurskoðuð, það er mjög mikilvægt.

Mig langar jafnframt að benda hæstv. ráðherra á atriði sem fram kom þegar þessi mál voru skoðuð en það er fimm ára geymslureglan. Ef til vill þarf að hafa meiri sveigjanleika í þeim efnum. Mikið álag er fyrir konur að fara í eggnám auk sem þær eldast auðvitað og því gæti verið ástæða til að geyma egg lengur. Eggnám verður erfiðara eftir því sem konur verða eldri og æskilegt er að þær fái að nýta egg eða fósturvísa sem til eru þótt þeir hafi verið geymdir lengur en í fimm ár.

Við förum svipaða leið og nágrannaríki okkar, varfærna leið. Vegna athugasemda sem fram hafa komið eftir að málið var afgreitt úr nefnd sl. vor tel ég þó fulla ástæðu til að hv. heilbrigðisnefnd skoði þá þætti sem fram komu í umsögn vísindasiðanefndar og reyndar allar hliðar málsins. Ég hvet til þess þar sem ég á ekki sæti í nefndinni og efast ekki um að það verði gert því að þannig var unnið að málinu sl. vor. Nú eru komnir nýir þingmenn í nefndina þannig að full ástæða er til að skoða málið án þess að nefndin þurfi að finna upp hjólið og hún nýti sér þá vinnu sem búið var að vinna á síðasta þingi.