135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[16:52]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sem varaþingmaður er augljóslega enn þá að læra tökin hérna, hvernig við biðjum um orðið eða biðjum ekki um það. En ég er alls ekki að reyna að skáka hv. þm. Bjarna Harðarsyni út sem föður, engan veginn, ekki frekar en mæðrum. Þetta snýst um að börn geti hamingjusamlega alist upp hjá ástríkum foreldrum og hjá ástríku foreldri. Við búum í samfélagi þar sem fjölskyldumunstur er fjölbreytt. Þetta er eitt þeirra.

Við eigum ekki að búa við það að íslenskar konur bíði endalaust eftir þessari réttarbót og fari þangað sem þetta er leyft. Þær eiga að fá þessa þjónustu hér heima.