135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.

182. mál
[17:13]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel rétt að nýr hæstv. heilbrigðisráðherra haldi áfram að taka til í lagakistunni og skoða lög sem eru orðin úrelt eða stangast á við önnur lög, líkt og gert er í þessu frumvarpi til laga um brottfall um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Meðal annars texti frumvarpsins bendir til þess að lögin séu orðin nokkuð gömul.

Ástæðan fyrir því að ég tek til máls varðandi þetta frumvarp, sem ég tel ljóst að verði afgreitt á þinginu og hugsanlega án mikillar umræðu, er að hjá mér vöknuðu spurningar varðandi áfengisvarnanefndir þær sem hafa verið starfræktar eða ættu að hafa verið starfræktar hjá sveitarfélögunum, hversu virkar sem þær hafa verið. Þar hafa a.m.k. verið til staðar tæki innan hvers sveitarfélags og leiðir til að vera á varðbergi gagnvart breytingu á sölu og neyslu í hverju sveitarfélagi. Nú eru nefndirnar hugsanlega komnar inn í félagsmálanefndir, allt eftir skipulagi hvers sveitarfélags. Þau eru hluti af forvörnum eða félagsþjónustu, hvernig svo sem hvert sveitarfélag setur fram sína skipulagsskrá.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að þetta fyrrverandi hlutverk áfengisvarnanefnda, að vera á varðbergi og umsagnaraðili, t.d. varðandi fjölgun áfengisútsalna eða þess innan málaflokksins sem komið getur inn á borð hvers sveitarfélags, þurfi ekki í lögum um sveitarfélög, lögum um félagsþjónustu eða einhvers staðar annars staðar, að eiga sérstakt ákvæði til að styrkja þennan þátt til þess að standa vaktina í hverju sveitarfélagi fyrir sig.