135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

sértryggð skuldabréf.

196. mál
[17:33]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög athyglisvert frumvarp sem gerir lánamarkaðinn og fjármálamarkaðinn skilvirkari en verið hefur. Það er hlutverk fjármálamarkaðar að flytja peninga frá sparifjáreigendum, í grunninn, til lántakenda þannig að lántakendur ráði við stærri framkvæmdir en ella væri mögulegt. Margar af stærstu framkvæmdum mannkynsins væru gjörsamlega óhugsandi án virks og öflugs lánamarkaðar.

Það er mikilvægt að lánamarkaðurinn vinni skilvirkt. Til að útrýma algengum misskilningi vil ég benda á að bankar eru yfirleitt ekki sparifjáreigendur. Þeir taka í rauninni ekki vextina heldur eingöngu vaxtamun. Það er einmitt sá vaxtamunur sem menn geta lækkað með því að koma inn með nýja tækni á lánamarkaðinn sem gerir lánveitingarnar síður áhættusamar því stór hluti af vaxtamun og vöxtum yfirleitt er fyrir áhættu, ekki sem leiga á fjármagni. Það eru eiginlega grunnvextirnir, vextir ríkisskuldabréfa, sem eru grunnurinn að áhættulausum fjárfestingum.

Fyrirkomulagið sem hér er talað um, um sértryggð skuldabréf, er nýtt tæki sem er reyndar hefur verið notað en án lagastuðnings á Íslandi. Það gerir lánamarkaðinn enn skilvirkari, lækkar vaxtamun en það er sá kostnaður sem bankarnir taka af sparisjóðseigendum eða lántakendum eftir atvikum og menn ættu að skoða það. Ég reikna með því að vaxtamunurinn í sértækum skuldabréfum geti orðið afskaplega lágur.