135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tekjuskattur.

42. mál
[17:38]
Hlusta

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt með síðari breytingum. Flutningsmenn eru ásamt mér hv. þm. Gunnar Svavarsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Kristinn H. Gunnarsson.

Megintilgangur þessa frumvarps er að stuðla að betri heilsu landsmanna með þátttöku atvinnurekanda í kostnaði sem aftur ætti að leiða til lægri útgjalda ríkissjóðs til heilbrigðismála.

Með frumvarpinu er lagt til að kostnaður sem lögaðili ber og miðar að því að tryggja heilsu starfsmanna, svo sem með forvarnaraðgerðum, læknisskoðunum og framlögum til starfsmanna til íþróttaiðkunar, verði frádráttarbær frá skatti.

Meginregla skattalaga um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri felur í sér að heimilt er að draga frá tekjum rekstrarkostnað, þ.e. þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Helstu frádráttarliðir eru síðan taldir upp í lögunum en sú upptalning er engan veginn tæmandi og er í mörgum tilvikum matsatriði hvað fallið getur þar undir þegar lagaákvæðum sleppir.

Ekki hefur verið litið á greiðslur vinnuveitanda til starfsmanna vegna íþróttaiðkunar sem frádráttarbæran rekstrarkostnað nema hann sé gefinn upp á launamiðum sem hlunnindi starfsmanna. Sú niðurstaða er þó engan veginn óumdeilanleg þar sem hagsmunir vinnuveitanda af því að starfsmenn séu við góða heilsu eru ótvíræðir. Heilbrigðir og hraustir starfsmenn eru líklegir til að skila meiri tekjum til fyrirtækja og gildir þá einu á hvaða sviði það er. Kostnaður vegna starfsmannahalds minnkar því að gera má ráð fyrir minni veikindum ef starfsmenn stunda holla hreyfingu.

Samkvæmt framansögðu má vissulega halda því fram að peningar sem varið er til heilsueflingar séu til þess fallnir að afla tekna, tryggja þær og halda þeim við. Með hliðsjón af þessu er ekki óeðlilegt að mörg fyrirtæki hafa séð sér hag í því að hvetja og styrkja starfsmenn sína til að stunda líkamsrækt af einhverjum toga.

Frumvarp þetta heimilar lögaðilum ekki aðeins að gjaldfæra framlög til starfsmanna sinna vegna íþróttaiðkunar heldur er gert ráð fyrir að framlög til hvers konar aðgerða sem eru til þess fallnar að efla og tryggja heilsu starfsmanna séu frádráttarbærar. Gert er ráð fyrir að ráðherra útfæri þessa heimild nánar í reglugerð.

Ávinningur af þeim lagabreytingum sem hér eru lagðar til er margþættur. Gera má ráð fyrir að vinnuveitendur verði viljugri til að bera kostnað af ýmiss konar aðgerðum sem vernda og stuðla að betri heilsu starfsmanna sem aftur skilar sér í auknu starfsþreki og meiri framleiðni. Starfsmennirnir hafa augljósan persónulegan ávinning af þessu. Ávinningur þeirra er betri heilsa og starfsþrek til vinnu sem og tómstunda auk fjárhagslegs ávinnings. Ávinningurinn ristir dýpra því að heilsuefling og hreyfing er lýðheilsumál sem stjórnvöld á hverjum tíma hljóta að gefa gaum enda er aukin hreysti landsmanna þjóðhagslega hagkvæm, t.d. með minni kostnaði heilbrigðiskerfisins. Auk þessa má ætla, eins og áður segir, að heilbrigðir og hraustir starfsmenn skili meiri tekjum til fyrirtækja sem aftur eykur skatttekjur ríkissjóðs, en það vegur upp á móti því tekjutapi sem frádráttarheimildin kann að hafa í för með sér.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða lítið og einfalt mál sem þó er til þess fallið að efla heilsu landsmanna og einnig, eins og lögin eru nú úr garði gerð, að tryggja jafnræði milli ríkisfyrirtækja t.d. og einkafyrirtækja. Þau fyrirtæki sem ekki greiða skatt geta vissulega stutt við slíka starfsemi einstakra starfsmanna og vissulega telst það þá til útgjalda. Á sama hátt, virðulegi forseti, held ég að slík ákvæði í lögum ættu að efla heilsu landsmanna sem yrði jafnvel til þess að draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu.

Ég hef ekki haldbærar tölur um nákvæmlega hve mikið þetta þýðir í fjárhæðum. Hversu miklar tekjur eða tekjutap felast í frumvarpinu. Tekjutap er þó ólíklegt þar sem fengjum öflugri og heilsuhraustari starfsmenn. En það litla sem ég gat grafið upp um þetta gaf til kynna að hér værum við að tala um nokkrar milljónir í tekjur sem ríkið kynni að verða af þótt það sé ekki nákvæmt. Eins væri tryggt jafnræði á milli fyrirtækja því að í dag geta fyrirtæki lagt fram fjármuni í starfsmannasjóði og þannig farið fram hjá því að greiða skatt vegna hlunninda. Það er miklu eðlilegra að þetta sé allt uppi á borðinu.

Hér er um að ræða, virðulegi forseti, lítið mál sem ég held að sé til þess fallið að efla, styrkja og bæta heilsu landsmanna og framleiðni. Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu gangi málið til efnahags- og skattanefndar.