135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tekjuskattur.

42. mál
[17:44]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er á ferðinni afskaplega gott mál sem ég er á móti.

Þau eru mörg góðu málin, t.d. að fyrirtæki geti lagt til menningar- og líknarmála og dregið frá skatti, að fyrirtæki geti lagt til rannsókna- og þróunarsjóða til að geta dregið frá skatti. Sama gildir um að fella niður virðisaukaskatt af barnafötum, eða af ilskóm handa öldruðum sem er kalt á fótunum o.s.frv. Stefna undanfarins áratugar hefur verið í öndverða átt, þ.e. að gera skattkerfið einfaldara og án undantekninga. Þess vegna er ég á móti þessu góða máli.

Frú forseti. Það er mikilvægt fyrir atvinnulífið að skattkerfið sé einfalt og skattarnir lágir. Það minnkar möguleika á undanskotum og öll umsvif við skattkerfið. Það eru verðmæti í sjálfu sér að hafa einfalt skattkerfi enda sjáum við að atvinnulífið blómstrar þegar þeirri stefnu er fylgt að forðast undanþágurnar og góðu málin. Það hefur borið ávöxt. Þess vegna er ég á móti þessu góða máli.