135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

réttindi samkynhneigðra.

18. mál
[18:09]
Hlusta

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég kem upp til að fagna því frumvarpi sem hér er til umræðu og vona að þingheimur sjái sóma sinn í að veita því brautargengi svo að það nái fram að ganga. Ég er sammála flutningsmönnum að það sé grundvallaratriði að löggjöfin mismuni ekki fólki en samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir vera jafnir fyrir lögum. Ef þetta nær ekki fram að ganga eru hér á landi í gildi tvenn lög um hjúskap sem flokka einstaklinga eftir kynhneigð, ein lög gilda fyrir samkynhneigða og önnur lög gilda fyrir gagnkynhneigða. Að mínu mati er það ótrúlegt og óskiljanlegt að svo sé enn þann dag í dag að íslensk lög flokki fólk eftir kynhneigð, enda er kynhneigð einkamál hvers og eins og á ekki að koma ríkinu við.

Í raun snýst þetta frumvarp um grundvallarsýn okkar á samfélagið. Með því að skipta fólki í hópa á þennan veg erum við að skapa forsendur fyrir mismunun og kúgun. Verði frumvarpið samþykkt, sem ég vona, eyðum við allri mismunun vegna kynhneigðar úr lögum, það er stór áfangi. Þrátt fyrir það megum við ekki gleyma því að það að útrýma mismunun úr lögum er ekki það sama og að útrýma mismunun úr þjóðfélaginu. Því megum við ekki slaka á þó að stórum áföngum í réttindabaráttu samkynhneigðra sé náð, sem ég vona að verði með samþykkt þessa frumvarps.