135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

réttindi samkynhneigðra.

18. mál
[18:11]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna sérstaklega því frumvarpi sem hér er til umræðu. Fyrsti flutningsmaður þess er hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir en sú sem hér stendur er líka flutningsmaður að málinu og reyndar einn fulltrúi í viðbót úr Framsóknarflokknum, þ.e. hv. þm. Bjarni Harðarson. Þingmenn úr þremur flokkum eru á þessu frumvarpi, því að þar er líka fyrir utan nokkra hv. þingmenn Vinstri grænna hv. þm. Grétar Mar Jónsson úr flokki Frjálslyndra.

Í öllum samfélögum er ákveðið hlutfall af fólki samkynhneigt, talið er að það hlutfall sé kannski í kringum 10%. Þegar rætt er um það finnst sumum það hátt, öðrum finnst það ósköp eðlilegt, en algjörlega óháð því er alveg ljóst, virðulegur forseti, að tiltölulega stór hópur fólks í hverju samfélagi er samkynhneigt. Það er eðlilegt að samkynhneigðir hafi sömu réttindi og aðrir, það eru engin rök á bak við það að samkynhneigðir hafi ekki sömu réttindi og aðrir, maður getur ekki séð þau rök.

Það voru miklir fordómar í garð samkynhneigðra áður fyrr og þeir eru að einhverju leyti á kreiki enn þá en þó er alveg augljóst að samkynhneigðir hafa náð mjög miklum árangri í réttindabaráttu sinni hin síðari ár, með skilningi mjög stórs hluta samfélagsins og skilningi þingmanna, og tekin hafa verið afar jákvæð skref í réttindabaráttu þeirra upp á síðkastið. Það stendur út af að ná fullu jafnrétti og ef það mál sem við fjöllum um hér í dag yrði samþykkt væri fullum réttindum náð.

Stjórnmálaflokkar hljóta að gera upp við sig hvort þeir vilja að samkynhneigðir hafi full réttindi eða ekki. Framsóknarflokkurinn hefur farið í gegnum þá umræðu og það er alveg ljóst að sú stefna sem flokkurinn hefur markað sér er á þá leið að ekki eigi að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Mig langar að lesa, virðulegur forseti, upp úr grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins, sem er grunnurinn sem við breytum ekki fyrir hverjar kosningar, við breytum þeirri grundvallarstefnuskrá mjög sjaldan. Þetta er ekki stefnuskrá sem lýtur lögmálum neinna sviptivinda eða þess sem er uppi dagsdaglega í samfélaginu, þetta eru okkar grundvallargildi. Í kaflanum um mannréttindi stendur, með leyfi forseta:

„Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum.“

Það er því alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn telur það vera eitt af grundvallarmálunum í stefnu sinni að hafna mismunun á grundvelli kynhneigðar. Það þýðir að ekki á að mismuna á grundvelli kynhneigðar.

Við höfum líka orðað okkur sterkt að þessu leyti í stefnuskrám og flokksþingssamþykktum. Ég get nefnt hér að fyrir nokkrum árum samþykktum við texta sem hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Framsóknarflokkurinn telur jafnframt brýnt að annarri mismunun á grundvelli kynhneigðar verði útrýmt.“

Þá er verið að fjalla um ættleiðingu barna þannig að það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn styður full réttindi samkynhneigðra.

Það hefur orðið mikil breyting hér í samfélaginu, jákvæð breyting, og ég vil líka draga það fram að það hefur orðið mjög jákvæð breyting innan kirkjunnar. Hún hefur tekið mörg skref. Það eru einstaklingar innan kirkjunnar, prestar sem hafa verið góðir talsmenn. Ég get nefnt sem dæmi hér séra Hjört Magna Jóhannsson fríkirkjuprest sem hefur verið öflugur talsmaður að þessu leyti. Ég get líka nefnt séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprest sem einnig hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar og það er hægt að nefna fleiri presta þannig að það er jákvæð þróun.

Í frumvarpinu kemur fram að það eigi að taka út orðin karl og kona varðandi hjúskap þannig að það gildi þá ein hjúskaparlög í landinu fyrir alla, ekki ein fyrir karl og konu og svo önnur staðfest samvist fyrir samkynhneigða. Það skref sem við flutningsmenn viljum því gjarnan taka er að það verði ein hjúskaparlög í landinu þannig að þau gildi um alla og til þess að það verði hægt að gera þarf að taka orðin karl og kona út og setja orðin tveir einstaklingar inn þannig að í stað orðanna karls og konu í 1. gr. hjúskaparlaganna komi orðin tveggja einstaklinga. Þá yrðu líka lögin um staðfesta samvist látin falla úr gildi.

Það er þessi breyting sem er sú sem upp á vantar til að samkynhneigðir og gagnkynhneigðir séu að fullu jafnir fyrir lögum hvað varðar hinn formlega þátt hjúskapar. Samkvæmt lögunum um staðfesta samvist hafa einungis sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra heimild til að staðfesta samvist para og þannig er samkynhneigðum pörum ókleift að öðlast kirkjulega vígslu og það sama gildir um sáttaumleitanir í tengslum við skilnað. Þetta hefur maður heyrt hjá samkynhneigðum, meðal annars á ráðstefnum sem ég hef sótt, að þeir sækja í að fá að njóta sömu hlýju og sömu aðstöðu gagnvart bæði hjónavígslunni og líka gagnvart sáttaumleitunum ef þess þarf við skilnað þannig að þeir fái bara sama aðgang að allri umgjörðinni í kringum hjónabandið og gagnkynhneigðir hafa.

Ég vil taka það sérstaklega fram að stundum hefur maður heyrt sagt: „Nei, það er nú ekki hægt að taka orðin karl og kona út og kalla það hjónaband ef það eru tveir samkynhneigðir. Samkynhneigðir geta ekki átt börn af líffræðilegum ástæðum. Hjónabandið er svona grundvöllur barneigna.“ Það er ekki þannig. Það er hvergi í lögum talað um að börn séu grundvöllur hjónabands. Það er ekki tengt saman í okkar löggjöf þannig að þau rök standast ekki, virðulegur forseti.

Fyrir stuttu síðan var haldið mjög skemmtilegt málþing um þessi mál. Mig langar, með leyfi virðulegs forseta, að vitna aðeins í leiðara sem var skrifaður eftir það málþing af því að í þeim leiðara kemur fram með mjög skýrum hætti hvernig staðan er. Þetta er leiðari sem Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri 24 stunda skrifar og ber yfirskriftina Glatað tækifæri. Mig langar að grípa niður í hann. Hann segir í leiðaranum að þegar þessi leiðari sé skrifaður þá verði prestum sem það kjósa heimilt að vígja samkynhneigða í staðfesta samvist. Sumir telji að það sé mikill sigur. En það sé reyndar ekki mikill sigur þegar að er gáð. Þessi leiðari er skrifaður núna í lok október þannig að það er stutt síðan hann var skrifaður. Ég ætla að fá lesa aðeins upp úr þessum leiðara. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Þetta þýðir í raun að lítil sem engin breyting verður á núverandi ástandi. Einstakir prestar hafa í nokkur ár blessað staðfesta samvist samkynhneigðra. Eini munurinn er að nú verða prestar löggiltir vígslumenn.

Þetta er ekki það sem hinn stóri hópur samkynhneigðra, aðstandenda þeirra og stuðningsmanna hefur beðið um. Þetta er heldur ekki það sem meiri hluti þjóðkirkjufólks vill. Yfirgnæfandi meiri hluti er fyrir því í söfnuðum landsins að samkynhneigðir fái að ganga í heilagt hjónaband rétt eins og gagnkynhneigðir. Fái hlutdeild í hjónabandinu í stað þess að kærleikssamband þeirra þurfi að heita eitthvað annað. Hverju gagnkynhneigt hjónafólk tapar á því að samkynhneigðir fái líka að kalla sig hjón hefur enginn útskýrt með sannfærandi hætti.“

Hérna er verið að færa rök fyrir því að það er enginn að tapa á þessari nýju löggjöf verði hún samþykkt. Það er gróði fyrir samkynhneigða og ekki tap fyrir gagnkynhneigða þannig að það er enginn sem tapar á þessari breytingu.

Síðar í leiðaranum segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Á Alþingi er klárlega meiri hluti fyrir því að jafna réttindi samkynhneigðra og gagnkynhneigðra að öllu leyti. Orðalagið í stjórnarsáttmálanum er kannski tilkomið af einhverri misskilinni tillitssemi við þjóðkirkjuna. Það kemur hins vegar í veg fyrir að önnur trúfélög geti gengið alla leið og vígt samkynhneigða í sama hjónaband og gagnkynhneigða.

Rétta leiðin í málinu væri að Alþingi samþykkti að ein hjúskaparlög ættu að gilda um hjónaband jafnt gagnkynhneigðra og samkynhneigðra og að trúfélögum sé heimilt að gefa fólk saman í hjónaband. Það er í rökréttu samræmi við að fólk njóti að öllu leyti sömu réttinda óháð kynhneigð. Svo gætu trúfélögin haft framkvæmdina eftir sínu höfði.“

Hér kveður ritstjórinn Ólafur Þ. Stephensen upp úr með að það sé meiri hluti á Alþingi fyrir málinu. Það hefur ekki alveg reynt á það svo sem enn þá. En hann er væntanlega að draga þá ályktun vegna skoðanakannana og vegna stefnu flokkanna af því að flokkarnir gefa sig nú flestir út fyrir að styðja þá leið að mismuna ekki eftir kynhneigð. Ef menn meina það virkilega getur ekki verið að þeir vilji tvenn hjúskaparlög í landinu, þ.e. ein hjúskaparlög fyrir gagnkynhneigða og svo lög um staðfesta samvist fyrir samkynhneigða. Hann er þarna að færa rök fyrir því að eina rökrétta leiðin til þess að jafna réttindin að fullu, 100%, sé að hafa ein hjúskaparlög í landinu.

Virðulegur forseti. Um daginn, á þessu málþingi, var þar í pallborði ungur maður — mig minnir að hann hafi verið 15 ára — sem var nýkominn úr skápnum, eins og það heitir. Hann var spurður þarna að því hvernig hann upplifði viðbrögð samfélagsins þegar hann var að tjá sig við sína vini og vandamenn og aðra um að hann væri samkynhneigður. Hann sagði að hann hefði ekki orðið fyrir neinum miklum fordómum eða maður upplifði það þannig af viðbrögðum hans. Svo var hann spurður: Hvað finnst þér um þessa umræðu um að það sé ekki það sama sem gildir um samkynhneigða og um gagnkynhneigða varðandi hjónabandið?

Virðulegur forseti. Hann svaraði á svo sérstakan hátt að mig langar að endurtaka það þó að ég sé alls ekki með það neitt orðrétt hvernig hann sagði það. En hann notaði svo skemmtilega röksemdafærslu fyrir því að það ætti að koma fram við samkynhneigða eins og aðra og þeir ættu að njóta fullra réttinda eins og allir aðrir. Hann sagði að ef það væri ekki rétt og eðlilegt að vera samkynhneigður fyrir hann þá hefði ekki guð skapað okkur svona. Maður spyr sjálfan sig: Er eitthvað hægt að vera á móti þessum rökum ef maður er mjög trúaður. Maður efast um það. Þetta er bara staðreynd að það er hluti fólks samkynhneigt, um 10% í hverju samfélagi fyrir sig og það er ekkert hægt að rökræða það neitt. Það er bara þannig. Því ber okkur öllum í samfélaginu að standa vörð um réttindi þeirra eins og réttindi annarra af því að það er enginn sem tapar á því. Það er bara gróði.

Virðulegur forseti. Ég vil segja hér að lokum að það er rétt að unnist hafa sigrar og við erum mjög nálægt því að vera komin með full réttindi. Þau eru ekki í höfn. Við þurfum ekki að vera með neinn gassagang í þessu. Þetta er allt að koma. Þó er alveg ljóst að ef við ræðum ekki málin og ef við flytjum ekki þessi mál hér á þingi og höldum umræðunni vakandi og færum rök fyrir þessum réttindum þá skeður ekki neitt. Það verður því að fara í gegnum umræðuna og reyna að fá fleiri í hópinn til þess að ná fullum réttindum fram.

Ég held að þetta sé einungis spurning um tíma og ég leyfði mér á því málþingi sem ég var að vitna hér í að giska á hvaða tíma þetta tæki. Auðvitað væri langbest ef þetta tæki skamman tíma og við gætum samþykkt þetta frumvarp hér fyrir jól. Ég efast nú um að svo verði. Það væri hægt að samþykkja það í vor. Ég er ekki viss um að það verði heldur. Ríkisstjórnin setti ákvæði inn í stjórnarsáttmálann sem eru ekki fullnægjandi og maður áttar sig ekki alveg á því hvort ríkisstjórnin, sem hefur nú mest áhrif hér á lagasetninguna — hún er með ofurmeirihluta eins og allir vita, 43 þingmenn af 63. Við erum 20 í stjórnarandstöðunni — maður áttar sig ekki alveg á því hvort það komi einhver frekari útspil frá ríkisstjórninni á kjörtímabilinu. Ég vona að svo verði. En ef það verður ekki þá er alveg hugsanlegt að menn geti í ríkisstjórninni sem kemur þar á eftir tekið á þessu máli og klárað það þá í viðræðum flokkanna um nýjan stjórnarsáttmála af því að þá hafa liðið í viðbót rúmlega þrjú ár frá því sem nú er og ég held að umræðan verði öll í þessa átt, þ.e. að veita samkynhneigðum 100% réttindi á við aðra. Þetta eru íbúar þessa lands sem eru að skila öllu sínu hér inn í samfélagið. Ekkert er upp á það að klaga að neinu leyti og því eigum við að tryggja að löggjöfin mismuni ekki á grundvelli kynhneigðar. Það er aðalatriðið, virðulegi forseti.