135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

uppkaup á jörðum og verndun landbúnaðarlands.

[13:38]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hafa orðið og eru að verða miklar breytingar á búskap í sveitunum. Nýjar búgreinar koma inn í landbúnaðinn í vaxandi mæli. Það eykur m.a. áhuga fólks á að kaupa jarðir og almennt talað eru þetta góð tíðindi. Við höfum lengi harmað það að fólki í sveitum landsins hefur fækkað. Við þurfum á því að halda að fólk sjái hag sínum betur borgið í dreifbýlinu en það hefur gert fram undir þetta. Það gerist m.a. með batnandi samgöngum, bættum fjarskiptum og því að nýjar búgreinar eflist. Hestamennska, ferðaþjónusta og skógrækt eru dæmi um það.

Þetta kallar hins vegar á breytt búsetumynstur. Þetta kallar m.a. á það að jarðir sem áður voru kannski ekki nýttar eða nýttar til einhvers annars eru núna nýttar í þessu skyni, m.a. til að svara áhuga fólks á nýjum búgreinum í landinu. Við sáum á sínum tíma, á síðasta áratug nýliðinnar aldar, allt aðra þróun. Þá vorum við að reyna að laga íslenska búvöruframleiðslu að innanlandsneyslunni og þá urðum við vör við það að jarðir fóru í eyði. Þetta er tíminn sem menn hafa stundum kallað þegar ljósin slokknuðu í sveitum landsins.

Sem betur fer er þetta ekki svona núna. Það er alveg rétt sem hv. málshefjandi sagði, heilmiklar búháttabreytingar eiga sér stað í íslenskum landbúnaði, en þær miða m.a. að því og hafa í för með sér að þar sem ljósin höfðu áður slokknað eru þau kveikt núna aftur. Landið er tekið undir nýja atvinnustarfsemi sem m.a. helgast af því að fólk getur stundað atvinnustarfsemi sína úr sveitunum og finnur líka farveg fyrir nýja atvinnustarfsemi sem ekki var til staðar áður.

Það er ekki mjög langt síðan ríkið þurfti að leysa til sín jarðir í stórum stíl. Bæði þá og fyrr sáum við að m.a. sú þróun sem ég nefndi átti mikinn þátt í því þegar bændur gátu einfaldlega ekki farið frá jörðum sínum, þeir voru fastir í eins konar fátæktargildru. Nú er þetta sem betur fer orðið breytt. Það er eftirspurn eftir jörðunum og núna gerist það sem ekki hafði gerst áður að lögbýlunum fjölgar, lögbýlum í ábúð fjölgar gagnstætt því sem áður var. Þetta er auðvitað jákvæð þróun. Eignamyndun á sér stað í sveitum landsins gagnstætt því sem áður var. Við vitum að eignamyndun á sér stað í vaxandi mæli á mörgum sviðum íslensks þjóðlífs — og er það þá slæmt að það gerist líka í sveitum landsins? Er það vont að íslenskir bændur verði meiri eignamenn en áður? Viljum við virkilega snúa þessari þróun við eða er verið að hvetja til þess, m.a. af hálfu hv. málshefjanda, að ríkið stuðli einhvern veginn að því að þessu verði öðruvísi farið, að bændur sjái ekki eignamyndun verða í sveitum landsins? Ég trúi því ekki. Ég trúi ekki að það vaki fyrir hv. málshefjanda t.d. að ríkið freisti þess að koma í veg fyrir að fólk úr þéttbýli setjist að í sveitunum. Ég vil a.m.k. ekki stuðla að því.

Það er alveg rétt að miklar breytingar eiga sér stað í íslenskum landbúnaði. Búin stækka. Það er mikil stærðarhagkvæmni í landbúnaðinum eins og í mörgum öðrum atvinnugreinum landsins. Ekki viljum við koma í veg fyrir það. Við sjáum að sama þróunin í þessum efnum á sér stað alls staðar í landbúnaði. Það er ekki bara í sauðfjárræktinni, ekki bara í mjólkurbúskapnum, það er líka í nýrri atvinnugreinum eins og garðyrkju eða loðdýrarækt svo að ég taki bara tvö dæmi af algeru handahófi.

Við vitum líka að krafa neytenda í landinu er sú að matarverð lækki. Það er stöðugt kallað eftir því að matarverð lækki. Það er líka krafa uppi, og eðlilega, af hálfu þess fólks sem býr í sveitum landsins að það geti búið við eðlileg lífsskilyrði, það geti keppt við önnur landsvæði um góð lífsskilyrði og góð lífskjör. Svarið við því er m.a. það að efla og auka hagkvæmnina í landbúnaðinum og hluti af þeirri hagkvæmni er að búin stækka. Það hefur síðan þær afleiðingar í för með sér, eins og við vitum, að bújörðunum hefur fækkað. Þannig er það í mjólkinni. Lögbýli með greiðslumark í mjólk voru 1.246 með meðalinnlögðu magni upp á 82 þús. lítra fyrir 10 árum. Núna er þetta orðið miklu stærra og hið sama hefur gerst í sauðfénu.

Það er mjög mikil dreifing eignarhalds í sveitunum. 85% aðila sem eiga lögbýli, einir eða fleiri, eiga aðeins í einu lögbýli. Það eru mjög fá dæmi um þá jarðasöfnun sem hv. þingmaður ýjaði að.

Núgildandi jarðalög voru sett árið 2004. Þau juku mjög frelsi í meðferð og ráðstöfun jarða. Undanfarið hefur hins vegar farið fram heilmikil umræða um þetta. Það er eðlilegt að sú umræða eigi sér stað. Bændasamtökin hafa haft forustu um að láta fara fram sérstaka athugun á þessu og ég tel að það sé eðlilegast að meta þær niðurstöður þegar þær liggja fyrir en hrapa ekki að neinum skyndiákvörðunum (Forseti hringir.) enda er það fráleitt, sérstaklega þegar við höfum í huga að það er fátt sem bendir til að þróunin sé á nokkurn hátt háskaleg eða að af henni stafi ógn fyrir sveitirnar í landinu.