135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

uppkaup á jörðum og verndun landbúnaðarlands.

[13:55]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að í dag ríkir mikil sturlungaöld í ásókn auðmanna í land á Íslandi. Ég er ekki alveg sannfærður um þau orð hæstv. landbúnaðarráðherra að það séu engin slík sólarmerki um við þurfum að varast þessa þróun. Það setur að mér ugg þegar ég heyri af því að einstakir auðmenn hafi keypt upp heila firði og við sem höfum fylgst með sögu sveitanna í landinu vitum að sveitir sem hafa lent í höndum mjög fárra auðmanna, og nærtækasta dæmið er í rauninni úr Borgarfjarðarhéraði, hafa liðið fyrir það í byggðaþróun sinni. Þetta er þróun sem við þekkjum til áratuga.

Ég tel samt að við eigum að fara okkur hægt í þessum efnum. Við eigum að fylgjast vel með og leggja fyrst og fremst áherslu á það núna að skipulagsvaldinu sé beitt til að vernda landbúnaðarlönd. Ég held að ekki sé tímabært að takmarka á neinn hátt kaup manna á löndum eins og gert er í hinni þéttbýlu Danmörku og við getum í rauninni illa sótt fyrirmynd í okkar löggjöf til Dana svo mjög sem landhættir þar eru ólíkir okkar.

Það er annað sem ég tel mikilvægt að koma að í þessu sambandi og það er að samhliða þessum kaupum auðmanna á jörðum hefur umgengnisréttur manna um landið skerst mjög mikið. Jarðir og gömul bæjarstæði eru girt af, lokuð af með hliðum, og þetta er þróun sem þarf að taka á og er í rauninni ólíðandi fyrir almenning sem á rétt á því að geta heimsótt bæjarstæði, heimsótt sögustaði. Það er hægt að leggja þá skyldu á herðar landeigendum að þeir gangi þannig frá, annaðhvort með vörslu eða einhvers konar eftirliti, að það sé opinn aðgangur að jörðunum. Í raun er verið að (Forseti hringir.) þverbrjóta lög víða á Íslandi í dag þar sem settar eru rafmagnsgirðingar um óræktuð lönd eða árbakka.