135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almannavarnir.

190. mál
[14:22]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það kemur svolítið flatt upp á mann að við séum að ræða frumvarp til laga um almannavarnir af því að maður hélt að hegningarlögin væru fyrst á dagskrá og þau eru það reyndar en svona er þetta. Ég var kannski ekki alveg undirbúinn að hlaupa í þetta núna en ég vil samt taka til máls og lýsa því að ég held almennt talað þá séum við á réttri leið með þetta frumvarp.

Það eru auðvitað ýmis nýmæli í frumvarpinu og eins og ég skil bæði hæstv. dómsmálaráðherra og frumvarpið sjálft, þá er verið að koma til móts við þær nýju ógnir sem að okkur steðja í samfélaginu í dag og þar er um að ræða að að okkur steðjar meiri ógn nú en við höfum kannski áður áttað okkur á, bæði af farsóttum og hryðjuverkum. En áður fyrr vorum við mun meira að horfa til náttúruhamfara. Auðvitað geta þær dunið yfir en það eru að koma nýjar ógnir upp í samfélaginu sem okkur ber að bregðast við.

Mig langar að spyrja dómsmálaráðherra út í okkur atriði í frumvarpinu. Fyrir það fyrsta er í 3. gr. verið að tala um almannavarna- og öryggismálaráð sem á að hafa stefnumörkun með höndum. Ég vil spyrja aðeins út í þetta. Af hverju þarf þetta ráð að heita almannavarna- og öryggismálaráð? Er ekki nóg að þetta heiti bara almannavarnaráð þó að það sé í stefnumótun og það eigi að taka líka forvarnastarfið o.s.frv.? Að þetta heiti öryggismálaráð finnst mér vísa svo mikið í hernað þannig að ég spyr: Er ekki nóg að þetta ráð heiti almannavarnaráð? Mér finnst það vera einhvern veginn miklu nær því sem frumvarpið byggist á.

Ég vil líka koma með ábendingu. Ef ég man rétt þá hefur heiti á heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu verið breytt í einungis heilbrigðisráðuneyti. Mig minnir að það sé þannig. Ef svo er þá þarf að breyta frumvarpinu til samræmis við það.

Í 5. og 7. gr. kemur fram hlutverk ríkislögreglustjóraembættisins og það er alveg geysilega viðamikið. Það er ágætt sem stjórnvöld hafa verið að gera upp á síðkastið, þ.e. að styrkja þetta embætti. Á því er greinilega mjög mikil þörf því að samkvæmt frumvarpinu er afar mikið vald sem felst hjá því embætti, verði frumvarpið nokkurn veginn óbreytt að lögum. Þá mun ríkislögreglustjóraembættið fara með alveg geysilega mikið vald og mikið hlutverk, reyndar ótrúlega mikið hlutverk þegar maður fer að skoða frumvarpið. Það eru svo mörg verkefni sem lögð eru til þess embættis. Í 7. gr. kemur fram að ríkislögreglustjóri á að skipuleggja forvarnir og almenningsfræðslu á sviði almannavarna svo og fræðslu einkaaðila, stjórnvalda og almennings um skipulag almannavarnakerfisins eftir því sem þurfa þykir. Mig langar aðeins að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvað þetta þýði. Ríkislögreglustjóri á að skipuleggja fræðslu einkaaðila. Er þetta þá einhvers konar samstarf og er talið að embættið þurfi að gera það til að þetta verði örugglega rétt fræðsla sem sett verður af stað um þessi málefni?

Það er líka kveðið á í 12. gr. um hlutverk samhæfingar og stjórnstöðvar sem ég held að sé mjög gott að gera með þessum hætti en þar kemur fram að þessi stjórnstöð skal hafa aðgang að öruggu fjarskiptakerfi og það sést í greinargerðinni að það er verið að tala um TETRA-kerfið og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað TETRA-kerfið dekkar mikið í dag, hvort það dekki allt landið meira og minna. Hve langt er uppbyggingin á TETRA-kerfinu komin? Svo stendur neðarlega í 12. gr. að ríkislögreglustjóri eigi að ráða umsjónarmann samhæfingar- og stjórnstöðvarinnar að fenginni tillögu stjórnar stjórnstöðvarinnar en það er ekki kveðið neitt á um hlutverk þessa umsjónarmanns í greinargerðinni þannig að manni leikur forvitni á að vita hvert sé hlutverk þessa umsjónarmanns. Er þetta einhvers konar framkvæmdastjóri eða einhver sem sér um þetta húsnæði eða hvaða hlutverk á umsjónarmaður að hafa?

Í 14. gr. er talað um þjónustumiðstöð. Ég held að þetta sé framfaraskref, að hafa það opið í lögum að geta sett á stofn þjónustumiðstöð ef eitthvað kemur upp á. Hún á að finna upplýsingagjöf til almennings sem er auðvitað mjög mikilvæg verði vá fyrir dyrum og hvað þá ef eitthvað skeður sem bregðast þarf við mjög hratt og hún á líka að annast samskipti við fjölmiðla. Ég held að þetta sé geysilega mikilvægt atriði og ég fagna því að það sé kveðið skýrt á um þetta í 14. gr. frumvarpsins.

Varðandi skyldu ríkisvaldsins til að gera viðbragðsáætlanir sem kemur fram í 15. gr. þá er þar rætt um að einstök ráðuneyti og undirstofnanir skuli í samvinnu við ríkislögreglustjóra kanna áfallaþol þess hluta íslensks samfélags sem fellur undir starfssvið þeirra. Ég tel það mjög skynsamlegt að nálgast málið með þessum hætti að kanna áfallaþol til að við séum vel í stakk búin ef eitthvað kemur upp á og það er líka kveðið á um að það eigi að undirrita og staðfesta fyrir réttum yfirvöldum þessar viðbragðsáætlanir til að þeir aðilar geri sér grein fyrir því hvaða skyldur á þeim liggja þannig að þessar viðbragðsáætlanir verði ekki bara orðin tóm.

Varðandi 18. gr. þá er kveðið á um að opinberum aðilum og einkaaðilum beri skylda til að veita nauðsynlegar upplýsingar við gerð viðbragðsáætlana ríkis eða sveitarfélaga. Þar kemur fram að sérhver ráðherra getur í samráði við ríkislögreglustjóra ákveðið að opinberir aðilar eða einkaaðilar skuli veita aðstoð, liðsinna eða útfæra nánar einstaka þætti laga þessara. Þessir sömu aðilar, þ.e. sérhver ráðherra getur í samráði við ríkislögreglustjóra ákveðið að opinberir aðilar eða einkaaðilar skuli grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana varðandi sölu á vörum, veitingu þjónustu og framleiðslu í atvinnurekstri sínum ef þess gerist þörf til að markmið laga þessara náist. Ég vil nýta tækifærið, virðulegi forseti, og spyrja dómsmálaráðherra hvort það gætu komið dæmi sem tengjast þessari lagagrein, hvað er líklegt að gæti fallið hér undir.

Svo velti ég líka fyrir mér 19. og 20. gr. Ég átta mig satt best að segja ekki alveg á muninum á 19. og 20. gr. Í 19. gr. er verið að tala um almenna borgaralega skyldu og í 20. gr. er verið að tala um kvaðningar til starfa við almannavarnir. Í 19. gr. kemur fram að það er borgaraleg skylda þeirra sem eru á aldrinum 18–65 ára að gegna á hættustundu, án endurgjalds, starfi í þágu almannavarna í umdæmi þar sem þeir dveljast samkvæmt fyrirmælum sem lögreglustjóri gefur að fengnum tillögum almannavarnanefndar eða ríkislögreglustjóra og ákvörðun lögreglustjóra má skjóta til dómsmálaráðherra. Hér er verið að tala um að það sé borgaraleg skylda að gegna störfum á hættutíma og það er tilgreindur aldurinn 18–65. Ég spyr: Af hverju er þetta ekki 67? Af hverju er valinn aldurinn 65 en ekki aldurinn 67? Ég held að fólk sé tiltölulega hresst upp undir 67 ára aldur. Að minnsta kosti er það sá aldur sem við höfum miðað við varðandi hvenær menn teljast til ellilífeyrisþega.

Í 20. gr., kvaðningu til starfa við almannavarnir, kemur fram að ef hætta vofir yfir getur lögreglustjóri eða sýslumaður kvatt hvern fulltíða mann sem tiltækur er til tafarlausrar aðstoðar við störf í þágu almannavarna. Ákvörðun um kvaðningu fulltíða manns til starfa við almannavarnir verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

Það er hægt að kveðja menn strax til starfa. Mér finnst þetta, virðulegi forseti, mjög líkt hugsuninni í greininni á undan, 19. gr. nema að ekki er hægt að skjóta kvaðningu til æðra stjórnvalds. Það er hins vegar hægt samkvæmt 19. gr., þá er hægt að skjóta ákvörðun lögreglustjóra um að kalla menn til starfa til dómsmálaráðherra. Það má vera að kvaðning til starfa sé fremur grein sem gripið yrði til ef mjög mikið hættuástand skapaðist, þegar ekki er tími til að skjóta ákvörðuninni til æðra stjórnvalds. Það getur verið að það sé tímafrekt og eðli málsins samkvæmt ekki hægt. Ég átta mig hins vegar ekki, virðulegi forseti, á muninum á 19. gr. og 20. gr.

Í 21. gr. kemur fram að það sé skylda að taka þátt í námskeiðum og æfingum, hafi menn verið kvaddir til starfa og óheimilt sé að hverfa úr starfi án leyfis. Það er því mjög nálægt herskyldu sem þarna er kveðið á um. En auðvitað er eðlilegt að við getum kallað til fólks til aðstoðar við mjög mikið hættuástand.

Varðandi 26. gr., þ.e. ef fólk þarf að flytjast til er hægt að gefa fyrirmæli um að taka við fólki sem flutt hefur verið af hættusvæði, veita því húsaskjól og annan viðurgjörning eftir því sem aðstæður krefjast. Svo kemur segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Sveitarfélag sem flutt er frá greiðir kostnað vegna húsnæðis og fæðis, sem látið er í té samkvæmt þessari grein, en á kröfu um endurheimt á hendur þeim sem fyrirgreiðslunnar hafa notið.“

Þetta þýðir, virðulegi forseti, að ef flytja þarf til fólk, veita því mat og húsaskjól, þá á sveitarfélagið að borga fyrir það en síðan getur sveitarfélagið endurheimt það hjá viðkomandi flóttamönnum. Ég geri ráð fyrir að um sé að ræða eitthvert kostnaðargjald þannig að þetta séu sem sagt eðlileg gjöld.

Í 28. gr. er tilgreind rannsóknarnefnd almannavarna. Þetta er nefnd sem á að vera óháð. Alþingi á að kjósa þrjá menn í þessa nefnd samkvæmt 30. gr. og hún á að fá aðgang að trúnaðargögnum, gera skýrslu eftir að atburðir hafa átt sér stað og hafa mikið sjálfstæði. Ég fagna því. Ég held að það sé góð hugsun á bak við slíka rannsóknarnefnd. Þegar uppákomur verða, stórslys eða náttúruhamfarir eða hvað svo sem það er, er brýnt að gera skýrslu í kjölfarið og læra af henni. Þessi skýrsla á að vera opinber, eins og ég skil frumvarpið.

Virðulegi forseti. Mig langar líka að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í atriði sem komu fram í fjölmiðlum í dag. Þar var umfjöllun um að brunamálastjóri væri ekki alveg sáttur við frumvarpið og það tengdist, eins og ég skildi fréttina, því að sveitarfélög hefðu minna vægi í almannavarnakerfinu með nýja frumvarpinu en ríkislögreglustjóri meira vægi, þetta verði miðlægara kerfi heldur en við erum nú með. Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í það atriði, þ.e. rökin með eða á móti kerfinu eins og hér er lagt til að það verði.

Ég held að það sé mjög æskilegt að hafa afar miðlæga stjórn þegar annaðhvort hætta er fram undan eða hætta vofir yfir eða stórslys hefur orðið. Þá verður að vera mjög miðlæg stjórn aðgerða. Ég hallast því að því að styðja fyrirkomulagið í þessu frumvarpi.

Virðulegi forseti. Þetta er það sem ég hef fram að færa við þessa umræðu, þær spurningar sem ég tel ágætt að fá svör við. Ég vænti þess að allsherjarnefnd taki málið til góðrar meðferðar. En almennt vil ég segja að ég held að frumvarpið sé til framfara þótt örugglega séu einhver atriði sem þarf að huga betur að.