135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almannavarnir.

190. mál
[15:06]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er magnað að hlusta á málflutning hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur þegar hún fer að tengja þetta mál einhverri hervæðingu og hernaðarbrölti þegar hér er verið að fjalla um almannavarnalög í landinu. Þessi lög snúast um það hvernig við ætlum að koma samborgurum okkar til hjálpar á hættustundum gegn hvaða vá sem að okkur kann að snúa. Hryðjuverk og afleiðingar hernaðaraðgerða eru þar ekki undanskilin og það er mikill pollýönnuleikur hjá hv. þingmanni ef hún heldur að við getum algerlega fríað okkur gagnvart mögulegum afleiðingum slíkra atburða. Það er bara ekki svo.

Svo er gripið til þess að gagnrýna ákveðið samstarf sem við eigum við vina- og frændþjóðir okkar, næstu nágrannaþjóðir, þegar kemur að öryggismálum og björgunarmálum og undanskilin björgunarvinna í kringum landið og á Norður-Atlantshafi. Samstarfið á að vera á okkar forsendum. Frú forseti. Skyldi það vera ástæðan fyrir því að Vinstri grænir hafi ekki átt erindi í ríkisstjórn að samstarfið þarf alltaf að vera á þeirra forsendum?