135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almannavarnir.

190. mál
[15:10]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur auðvitað fullt leyfi til að viðra sjónarmið sín. Það er á þeirri forsendu sem við störfum á Alþingi, að viðra mismunandi sjónarmið á hinum mismunandi málaflokkum. Það er aftur á móti ábyrgðarhluti þegar menn fara að beina umræðunni á villigötur, að ég tel vísvitandi, með því að gera tortryggilegt eitthvert öryggismálaráð sem kemur fram í þessu lagafrumvarpi. Þetta öryggismálaráð er skipað æðstu embættismönnum þjóðarinnar. Við erum að tala um ráð sem kallað er til starfa þegar vá ber að höndum, alvarlega vá ber að höndum í samfélaginu, og það eru þeir aðilar sem halda um stjórnartaumana og verða á þeim tímum að taka þær mikilvægu ákvarðanir sem þarf að taka. Hjá hverjum á þetta að liggja? Þessi ábyrgð á ekki að liggja hjá neinum öðrum. Þeir eru aftur á móti ekki að vasast í daglegri framkvæmd. Þeir mæta ekki upp í stjórnstöð þegar verið er að sinna einhverjum aðgerðum beint en þeir eru þessi ábyrgi hópur. Að gera það samstarf sem við eigum við frændþjóðir okkar og vinaþjóðir á einhvern hátt tortryggilegt og ræða um hernaðarbrölt í því samhengi finnst mér ekki vera sjónarmið og mér finnst felast í því ákveðinn pollýönnuleikur ef fólk heldur að við getum fríað okkur algerlega af því að nefna í almannavarnalögum vá sem stafar af hernaðarógn og hryðjuverkaógn. Það er partur af þessari mynd.