135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almannavarnir.

190. mál
[15:29]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér nokkuð broslegt að fá þær upplýsingar frá hæstv. ráðherra að yfirlýsingin um almannavarna- og öryggismálaráð skuli hafa verið samþykkt í tíð fyrri ríkisstjórnar þannig að Framsóknarflokkurinn og þingmenn hans muni vera samábyrgir hvað þennan þátt málsins varðar. Ég fer ekki nánar út í það.

Hæstv. ráðherra talar um að ég sé komin út í ógöngur í málflutningi mínum og að hann eigi við lítil rök að styðjast þegar ég ræði um þetta gráa svæði sem ég telji vera á milli borgaralegra aðgerða í þessum efnum og hernaðarlegra.

Borgaralegar stofnanir á Íslandi starfa í auknum mæli með erlendum herjum og mig langar til að minna bara á eitt atriði til að hæstv. ráðherra sé með það alveg á hreinu að ég tel full rök fyrir þessum málflutningi mínum. Sérsveit lögreglunnar tók í sumar sem leið, í ágúst ef ég man rétt, þátt í æfingum 300 hermanna frá fjórum löndum. Hæstv. dómsmálaráðherra sagði frá því í erindi sem hann flutti hjá Samtökum um vestræna samvinnu, Varðbergi, þann 29. mars 2007 að fyrirhugaðar væru frekari æfingar af þessu tagi, þær yrðu reglubundinn hluti af varnarviðbúnaði landsins og það sé gert ráð fyrir því í samkomulaginu við Danmörku annars vegar og Noreg hins vegar að öryggis- og varnarmál væru tengd saman. Það kemur fram í titlum á þessu samkomulagi sem um ræðir.

Það er ekki langsóttara en svo að ég vek athygli fólks á því að hér er um grátt svæði að ræða. Við erum nú þegar farin að senda lögreglumennina okkar í heræfingar og erum að tvinna saman (Forseti hringir.) björgunarmál og hermál með því samkomulagi sem við höfum gert við nágrannaþjóðir okkar.