135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almannavarnir.

190. mál
[15:31]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lögreglan hefur sitt umboð samkvæmt lögreglulögum og hv. þingmaður var á þingi þegar við samþykktum ný lög um Landhelgisgæsluna. Það var m.a. rætt um þetta, það var talað um hlutverk Landhelgisgæslunnar. Þá urðu svipaðar umræður. Staðreyndin er sú að þó að þessi orð standi þá eru þetta borgaralegar stofnanir. Þær eru ekki hernaðarlegar stofnanir.

Tökum eitt dæmi: Ef Norðmenn hefðu ákveðið að kaupa herþyrlur til leitar og björgunar á Norður-Atlantshafi hefðum við ekki getað átt samstarf við þá um sameiginlegt útboð á björgunarþyrlum. Þegar Norðmenn ákváðu að kaupa borgaralegar björgunarþyrlur til leitar og björgunar á Norður-Atlantshafi, og norska dómsmálaráðuneytið tilkynnti okkur það, ákváðum við að leita eftir samstarfi við þá um útboð á leitar- og björgunarþyrlum. Væntanlega verður gengið frá samkomulagi um það í lok þessa mánaðar. Þetta sýnir þennan mun. Við erum að byggja nýtt varðskip í Síle um þessar mundir og eru allar kröfur til þess varðskips borgaralegar. Ef við hefðum ætlað að byggja varðskip til hernaðarnota hefðum við byggt allt annars konar skip. Og þótt lögreglumenn stundi æfingar með mönnum sem hafa hlotið herþjálfun breytast þeir ekki í hermenn. Þetta verður hv. þingmaður að hafa í huga.