135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almannavarnir.

190. mál
[15:33]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst ákveðinn fengur í þessum yfirlýsingum hæstv. ráðherra. Mér þykir hann tala skýrt í ræðustóli Alþingis, skýrar en mér hefur oft þótt hann gera áður í erindum sem ég hef lesið eftir hann eða heyrt hann flytja. Mér þykir gott að hæstv. ráðherra skuli tala með þeim hætti sem hann gerir hér. Mér þykir fengur að því að þessi ummæli skuli fylgja málinu inn í meðferð alþjóðanefndar. Ég tel að þar með séu meiri líkur á því en ella að algerlega skýr skil séu á milli hinna borgaralegu stofnana okkar og þeirra hernaðarlegu stofnana sem við eigum í auknum mæli samstarf við hvað varðar björgun og það sem kallað er öryggismál á hafinu og í lofthelgi okkar. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli tala með þeim hætti sem hann gerir og treysti því að allsherjarnefnd átti sig á því að skýra þarf línurnar. Það má ekki vera grátt svæði, við þurfum að hafa þessa hluti alveg á hreinu.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég segja að mér þykir miður að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa látið fara fram könnun á því á hvern hátt markmiðin með breytingunum 2003 hafi skilað sér. Ég tel einsýnt að allsherjarnefnd þurfi að skoða það og komi til með að gera það í umfjöllun sinni um málið og það verði þá tryggt að kostnaðarþáttur þessa máls verði með þeim hætti sem hæstv. ráðherra lýsir hér, að kerfisbreytingin sem slík leiði ekki til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.